Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra vill taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði en bæta stofnuninni tekjumissinn. Þetta er einhver allra versta hugmynd sem sett hefur verið fram á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Ástæða þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar gerðu einkarekna fjölmiðla að bótaþegum, rétt eins og svo marga aðra í samfélaginu, er sú að framlög til ríkisútvarpsins hafa verið aukin gríðarlega á síðustu árum. Með því að skekkja markaðinn svo mikið þá fór einkareknu miðlunum að blæða. Svo að Óðinn gæti nákvæmni, öllum nema Viðskiptablaðinu, en taprekstur var á útgáfufélagi þess í fyrsta sinn í fyrra, vegna Covid, síðan árið 2008. En vissulega versnaði reksturinn þökk sé auknum framlögum til ríkismiðilsins.

* * *

Myndataka í garðinum

Þessi fráleita framlagshækkun til ríkisútvarpsins var á vakt Bjarna Benediktsson, Illuga Gunnarssonar og annarra forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Þeir bera á þessu mikla ábyrgð. Reyndar þakkaði ríkisútvarpið Illuga fyrir með því að ráðast inn í garð hjá honum, taka myndir af heimili hans og hrekja hann út úr stjórnmálum. Með réttu eða röngu.

Eina skynsamlega leiðin er sú að draga úr umsvifum ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði. Það má vel setja ríkisútvarpinu skorður í auglýsingasölu, fækka auglýsingaplássum, breyta söludeildinni þar sem starfa 15 manns í pöntunardeild. Þar með myndu auglýsingatekjurnar minnka en þær sem stæðu eftir eru þær tekjur sem ólíklegt er að færi til annarra miðla.

Samhliða þessu á að hætta að ríkisstyrkja einkarekna fjölmiðla. Það er fráleitt af stjórnmálamönnum að rústa fjölmiðlamarkaðnum með ríkisframlögum til ríkismiðilsins og bíta svo höfuðið af skömminni með því að nota enn meira af peningum skattgreiðenda til að reyna að leiðrétta þann skaða. Sem þeim tekst auðvitað ekki því sú leiðrétting skaðar samkeppni einkamiðlanna.

* * *

Freistnivandi beggja aðila

Þetta skapar að auki freistnivanda hjá bæði miðlunum og stjórnmálamönnunum. Fjölmiðlarnir gætu fallið í þá gryfju að flytja fréttir sem henta styrkþegunum og stjórnmálamennirnir gætu breytt styrkjunum, þannig að þeir sem eru þeim þóknanlegir fái hærri styrki en þeir sem eru það ekki.

Lilja Alfreðsdóttir sagði á málþingi á vegum Blaðamannafélagsins í fyrradag að Sýn og Síminn væru of fínir fyrir að þiggja fjölmiðlastyrkina.

Þetta lýsir grundvallarmisskilningi hjá ráðherranum. Menn geta verið algjörlega andsnúnir styrkjakerfinu en neyðst til þess að taka við styrk sökum þess að samkeppnisumhverfið hefur verið eyðilagt. Svo verður að segjast að það er vandræðalegt fyrir ráðherrann, svo ekki sé meira sagt, þegar Orri Hauksson forstjóri Símans benti ráðherranum á að Síminn hefði ekki fengið fjölmiðlastyrk. Veit ráðherrann ekkert um hvað hún er að tala?

* * *

2-2,5 milljarða sparnaður

Með því að lækka tekjur Ríkisútvarpsins um 1,5-2 milljarða króna í formi lægri auglýsingatekna og ríkisstyrkja og fella niður styrki til einkarekinna fjölmiðla að fullu um 400 milljónirnar, er vandamálið að mestu úr sögunni. Ríkisútvarpið verður áfram ráðandi á markaðnum en skattgreiðendur verða 2-2,5 milljörðum króna ríkari. Óðinn viðurkennir reyndar að þarna er hann full bjartsýnn því einmitt stjórnmálamennirnir, eins og Lilja Alfreðsdóttir, munu án efa finna gríðarlega mikilvægt mál til að sturta peningum skattgreiðenda í.

Það hefur komið í ljós í umræðunni um fjölmiðlastyrkina að aðeins þeir fjölmiðlar sem eiga sér ekki viðreisnar von styðja núverandi styrkjakerfi. Þá á Óðinn ekki bara við Fréttablaðið, bakhjarl Viðreisnar, heldur bloggsíðuna Kjarnann og Stundina svo að einhverjir séu nefndir.

* * *

Ráðning forstjóra

Óðinn gagnrýndi harðlega hæfniskröfu í auglýsingu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um forstjórastöðu á Landsspítala fyrir áramót. Þar var meðal annars gerð krafa um gott vald á íslensku, kunnáttu í einu Norðurlandatungumáli og þekkingu og reynslu á opinberri stjórnsýslu. Ekkert af þessu skiptir nokkru máli, að mati Óðins, um hvort viðkomandi geti rekið Landspítalann vel, eða illa. Að auki eykur þetta líkurnar á því opinber starfsmaður veljist í verkefnið enda spáði Óðinn því, eftir að hafa litið yfir umsækjendur, að umsækjandinn sem fengi starfið væri þegar í starfi á Landspítalanum.

* * *

Í síðustu viku var Runólfur Pálsson nýrnalæknir skipaður af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Runólfur virðist vera afar fær læknir og vísindamaður með mikla hæfileika og reynslu. En Óðinn getur þó ekki betur séð en að Runólfur hafi takmarkaða reynslu af eiginlegum rekstri.

Í Silfri Ríkisútvarpsins á sunnudag var ágætt viðtal við Runólf. Viðhorf hans voru um margt skynsamleg. Það sem vakti helst athygli Óðins var viðhorf Runólfs til hins nýja verkefnis. Í stað þess að skipa sér í hóp með grátkór Landspítalans um meira fé úr vasa skattgreiðenda, sem stjórnað hefur verið af fyrrverandi forstjóra, Páli Matthíassyni, þá virtist hann hafa einlægan vilja til að takast á við verkefnið. Óðinn er því bjartsýnni eftir viðtalið en fyrir það.

* * *

Fyrir ríkisstarfsmenn

Um helgina birtist auglýsingin frá Umbru - þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins. Þar var auglýst eftir einkabílstjóra. Þar voru öll sjálfsögð skilyrði fyrir bílstjóra, svo sem gilt ökuskírteini. Í lok auglýsingarinnar segir að þekking á opinberri stjórnsýslu og stjórnskipan Íslands sé kostur.

Hvers vegna í ósköpunum þarf ráðherrabílstjóri að hafa þekkingu á opinberri stjórnsýslu og stjórnskipan landsins? Er það svo að ríkisstarfsmenn geti einir fengið starfið?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .