Þegar ég bjó í Svíþjóð, fyrir rúmum áratug, vakti athygli mína að fetaostur á borð við þann sem hér var (og er) í matvöruverslunum var óvíða sjáanlegur. Í stað hans var almennt á boðstólum sambærilegur ostur sem var m.a. markaðssettur undir heitinu Medelhavsinspirerad ost , þ.e.a.s. ostur innblásinn frá Miðjarðarhafssvæðinu, eða einfaldlega vitost sem myndi útleggjast sem hvítostur.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að ástæðan var sú að Grikkir höfðu eftir áralangt þref fengið staðfest fyrir dómstólum Evrópusambandsins að „feta“ væri svokallað verndað afurðarheiti á svæðinu. Samkvæmt skráningu þarf fetaostur m.a. að vera framleiddur með hefðbundnum aðferðum úr kinda- og geitaosti frá tilteknum svæðum í Grikklandi til þess að standa undir nafni.

Lengst af nutu afurðarheiti sem skráð voru innan Evrópusambandsins ekki verndar hér á landi og ókleift var að öðlast þessa vernd og viðurkenningu fyrir íslenskar afurðir á erlendri grundu. Í kjölfar gildistöku samnings Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæma vernd afurðarheita sem vísa til landsvæðis eða uppruna hefur þó opnast farvegur fyrir vernd íslenskra afurðarheita á Evrópska efnahagssvæðinu en samhliða geta erlend afurðarheiti sem skráð eru í upprunalandi notið verndar hér á landi.

Afurðarheitið „Íslenskt lambakjöt“ var skráð hjá Matvælastofnun snemma árs 2018 og er enn sem komið er eina skráða afurðarheitið hér. Á því kann hins vegar að verða breyting fljótlega því fyrir liggur umsókn um að afurðarheitið „Íslensk lopapeysa“ njóti verndar sem afurðarheiti fyrir handprjónaðar og hefðbundnar íslenskar lopapeysur úr íslenskri ull, prjónaðar á Íslandi – til aðgreiningar frá erlendum eftirlíkingum, eins og vísað er til í umsókninni. Framtíðin leiðir í ljós hvort skráningin nær fram að ganga en andmælafrestur er til 29. júní nk.