*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Líf Magneudóttir
3. maí 2018 13:25

Réttlát forgangsröðun

Það er forgangsverkefni að leysa bráðavanda leikskólanna sem birtist í alvarlegri manneklu.

Haraldur Jónasson

Eitt stærsta verkefni borgarstjórnar á síðustu tíu árum hefur verið að takast á við afleiðingar fjármálahrunsins. Óskynsamleg offjárfesting og misheppnuð útrásarævintýri á vegum m.a. Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hrun skiluðu Reykjavík gríðarlegum skuldum. Það hefur kostað sárar fórnir að takast á við þennan fortíðarvanda.

Við sjáum afleiðingar niðurskurðarins allt í kringum okkur. Í borgarstjórnartíð Besta flokksins og Samfylkingarinnar 2010-2014 voru leikskólagjöld t.d. hækkuð og framlög til leikskóla skorin niður. Þegar við Vinstri græn mynduðum meirihluta með Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum 2014 lögðum við áherslu á að hefja stóreflda uppbyggingu leik- og grunnskóla og létta byrðar á barnafjölskyldum m.a. með lækkun leikskólagjalda.

Vörn snúið í sókn

Eftir þetta kjörtímabil er ég stolt af þeim árangri sem við höfum náð. Snúið hefur verið af braut niðurskurðar og framlög til leikskólanna hafa verið aukin um tæpa tvo milljarða á síðustu tveimur árum. Þegar allt er tekið saman þá greiða barnafjölskyldur í Reykjavík minnst fyrir menntun og tómstundir barna sinna samanborið við nágrannasveitarfélögin.

Það er hins vegar ekki nóg, eins og birtist skýrt í því verkefni að fá fólk til starfa í leikskólum. Við höfum hrint í framkvæmd metnaðarfullri áætlun um ungbarnadeildir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans og við höfum þegar opnað nokkrar þannig deildir í hverfum borgarinnar. Það er brýnt að halda áfram á þeirri braut á næsta kjörtímabili og verkefnin sem þarf að ráðast í eru stór og mikil þegar það kemur að rekstri menntakerfisins.

Áframhaldandi meirihluti

Við Vinstri græn viljum halda áfram að starfa að þessum verkefnum sem við hófum í samstarfi við Samfylkingu, Bjarta framtíð og Pírata fyrir fjórum árum. Það samstarf hefur gefist mjög vel og skilað góðum árangri á mörgum sviðum og viljum við halda því áfram í einhverri mynd.

Í sameiningu höfum við haldið áfram að vinna úr fortíðarvanda útrásaráranna, fjárhagsstaða borgarinnar hefur batnað mikið á síðustu árum og er í dag mjög sterk. Traust staða borgarsjóðs skapar forsendur fyrir því að borgin blási til sóknar og ráðist í löngu tímabæra uppbyggingu. Þar skiptir hins vegar öllu máli hvernig er forgangsraðað og um það verður kosið í komandi borgarstjórnarkosningum.

Forgangsröðum rétt

Vinstri græn vilja forgangsraða fyrir barnafjölskyldur. Okkur finnast því kosningaloforð Samfylkingarinnar um dýrar risaframkvæmdir eins og að leggja Miklubraut í stokk strax á næsta ári vera nokkuð stórkarlalegar í því ljósi. Við viljum að borgin byrji á því að ljúka endurreisn leikskólanna, uppbyggingu ungbarnadeilda og bættum kjörum stétta í reykvískum leik- og grunnskólum. Að okkar mati er það forgangsmál að fjárfesta í þeim mannauði sem er í raun gangverk borgarinnar.

Við höfnum sömuleiðis loforðum Sjálfstæðisflokksins, sem stangast á við gildandi lög, um stórfelldar skattalækkanir til valinna hópa. Það er óréttlát og röng forgangsröðun að færa best stæðu íbúum Reykjavíkur 2,3 til 3,7 milljarða frekar en að auka lífsgæði barnafjölskyldna í borginni, koma til móts við eldra fólk sem býr við kröpp kjör og annarra sem svo sannarlega þurfa á stuðningi að halda.

Leiðréttum efnahagslegt óréttlæti

Á síðustu árum hefur stundum verið talað um „leiðréttingu“: Fasteignaeigendur hafa fengið sína leiðréttingu og sömuleiðis fjármagnseigendur. Æðstu stjórnendur hjá hinu opinbera og í einkafyrirtækjum hafa líka fengið myndarlega leiðréttingu, þökk sé kjararáði og kaupaukakerfum. Við eigum hins vegar alveg eftir að „leiðrétta“ að fullu niðurskurðinn sem varð á þjónustu við íbúa borgarinnar. Og við eigum eftir að leiðrétta kjör fjölmennra kvennastétta sem mennta og þroska börn í leik- og grunnskólum borgarinnar.

Ófrávíkjanleg krafa

Það liggur í augum uppi að brýnustu verkefni næstu ára eru hvorki rausnarlegar skattalækkanir fyrir útvalda hópa eignafólks né nýjar dýrar vegaframkvæmdir. Brýnustu verkefni næstu ára eru að styrkja og endurreisa félagslega innviði borgarinnar og skapa réttlátt samfélag í Reykjavík.

Það verður að vera forgangsverkefni að leysa bráðavanda leikskólanna sem birtist í alvarlegri manneklu. Það verður ekki gert nema með því að bæta kjör starfsmanna. Vinstri græn ætla að gera það að ófrávíkjanlegri kröfu að borgin gangi fram með góðu fordæmi og hafni láglaunastefnu sem bitnar fyrst og fremst á lífsgæðum barnafjölskyldna og gangverki borgarinnar.

Að sýna gott fordæmi

Reykjavíkurborg á líka að ganga fram með góðu fordæmi og móta sér stefnu um launamun milli æðstu stjórnenda og almennra starfsmanna. Vaxandi launamunur og misskipting sem er knúin áfram af óeðlilega háuum ofurlaunum stjórnenda eru sem eitur í samfélaginu sem skapar tortryggni og úlfúð.

Við viljum að borgin taki afdráttarlausa afstöðu gegn þessari þróun og opni á umræðu um hvað sé eðlilegur launamunur milli stjórnenda og starfsmanna. Ég tel að slík samræða sé ein af forsendum þess að hægt sé að skapa félagslegan stöð- ugleika sem er byggður á traustum stoðum efnahagslegs réttlætis og sanngirni. Í komandi kosningum er hægt að velja leið réttlætis og sanngirni með því að kjósa Vinstri græn til áhrifa. Gerum það.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is