*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Drífa Snædal
1. janúar 2020 12:34

Sanngjarn vinnumarkaður er forsenda framfara

Forseti ASÍ segir 4% atvinnuleysi ekki ásættanlegt, né að ekki sé verið að efla fullorðinsfræðslu og iðn- og tæknimenntun.

Enn ganga verkalýðsfélög landsins í kröfugöngum undir rauðum fánum 1. maí ár hvert.
Haraldur Guðjónsson

Það hafa heldur betur orðið sviptingar á vinnumarkaði á árinu, bæði til hins betra og verra. Það voru örlagaríkir dagar í lok mars þegar WOW fór á hausinn og um tvö þúsund manns misstu vinnuna á einu bretti. Í skugga þess var gengið frá lífskjarasamningunum við verslunarmenn og verkafólk. Iðnaðarmenn fylgdu svo í kjölfarið mánuði síðar.

Samningarnir voru með þeim umfangsmestu sem hafa verið gerðir aðallega vegna mikils samstarfs við stjórnvöld og samkomulags um umfangsmiklar breytingar í lagaumhverfi vinnumarkaðar. Þá var búinn til grundvöllur til vaxtalækkunar sem er nú að skila sér til fyrirtækja og almennings. Eins og allir góðir samningar þá skildi þessi eftir gríðarlega vinnu fyrir aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld við að framfylgja samningunum.

Meðal þeirra framfaramála sem samið var um var þrepaskipt skattkerfi, þar sem skattbyrðinni verður létt af tekjulægsta hópnum í tveimur áföngum. Lenging fæðingarorlofsins upp í tólf mánuði mun skipta miklu máli fyrir nýbakaða foreldra. Skilyrðing mánaða við hvort foreldri mun efla jafnrétti á vinnumarkaði og á heimilum. Endurskoðun lífeyrismála, betri möguleikar fyrir fólk til að eignast húsnæði, harðari viðurlög við launaþjófnaði og margt fleira var hluti af samningnum og verður hluti af uppgjöri þegar að því kemur. En þó kjarasamningarnir hafi verið umfangsmiklir og árið hafi að miklu leyti farið í eftirfylgni með þeim þá eru verkefnin fjölmörg í samfélaginu.

Atvinnuleysi fer vaxandi og þó það teljist ekki mikið á alþjóðlegan mælikvarða þá er 4% atvinnuleysi á Íslandi ekki ásættanlegt. Við höfum stært okkur af því að vinna mikið og lengi og sjálfsmynd einstaklinga er oft samofin vinnunni. Að hafa ekki aðgengi að vinnu, hvort sem það er vegna atvinnuleysis eða skertrar starfsgetu getur því haft alvarlegar afleiðingar fyrir félagslega stöðu og sjálfsmynd svo ekki sé talað um framfærsluna.

Sem betur fer voru atvinnuleysisbætur hækkaðar þegar betur áraði sem kemur mörgum til góða núna. En vaxandi atvinnuleysi er líka eitt af fyrstu merkjunum um breytingar á vinnumarkaði. Tímabundinn samdráttur í ferðaþjónustu er staðreynd, tæknibreytingar fækka starfsfólki í ýmsum geirum og það er orðið beinlínis áþreifanlegt í fiskvinnslu í landi og verslun.

Á sama tíma og við finnum fyrir breytingum á vinnumarkaði er ekki verið að standa við margyfirlýst markmið um að efla fullorðinsfræðslu og iðn- og tæknimenntun. Stórauknu fjármagni hefur verið varið í að efla háskólamenntun en lítið hefur farið fyrir fullorðinsfræðslunni. Á sama tíma hefur atvinnulífið breyst þannig að ferðaþjónustan hefur orðið sífellt frekari á vinnandi hendur og fólk með háskólagráður má nú finna í fjölmörgum störfum innan ferðaþjónustunnar.

Það er töluvert misvægi á milli vinnumarkaðarins og áherslu í menntun hér á landi. Það er orðið aðkallandi að afla frekari upplýsinga um þetta misvægi og bregðast við því. En þó við þurfum að mennta fólk til starfa á vinnumarkaði má ekki gleyma því að fyrst og fremst á fólk að hafa möguleika til að mennta sig á því sviði sem hugurinn stendur til.

Ef við lítum alltaf á menntun út frá „þörfum atvinnulífsins" þá verðum við af nýsköpun, listum og frjóum jarðvegi til að skapa og njóta. Menntakerfið þarf að mæta óskum hvers og eins en síðustu áratugi hefur þó verið ótrúleg áhersla á að bjóða uppá háskólanám í greinum sem eru ódýrar í kennslu. Það er dýrara en að kenna iðn- og verknám og við súpum nú seyðið af menntaáherslum síðustu áratuga.

Tveir hópar eru áberandi í þeim 7.000 hópi sem eru atvinnulausir á Íslandi í dag. Þetta eru verkamenn af erlendum uppruna og fólk með háskólapróf. Það er ljóst að sama úrræði hentar ekki báðum þessum hópum. Við stöndum í mikilli þakkarskuld gagnvart því fólki sem hefur yfirgefið heimalandið sitt til að leggja hér hönd á plóg til að reka okkar litla samfélag.

Það á skilið að fá úrræði við hæfi, endurmenntun, viðurkenningu á menntun frá heimalandi og stuðning til að læra íslensku og njóta þess að vera hluti af samfélaginu. Fólk með háskólamenntun þarf að hafa möguleika á endurmenntun til að styrkja sig á nýjum sviðum. Allt ber þetta að sama brunni; það verður að styrkja fullorðinsfræðslu og símenntunarmiðstöðvar.

Þetta ber hæst í þeim stóru áskorunum sem bíða okkar. Að hlúa að öryggi og afkomu þeirra sem eru utan vinnumarkaðar og auðvelda aðgengi inn á öruggan og góðan vinnumarkað.

Til lengri tíma litið verða ekki teknar neinar stórar ákvarðanir um samfélagsbreytingar nema fjalla um hamfarahlýnun og þær alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur tekist á hendur. Þar má sækja í góða ráðgjöf hjá hugveitum sem kynnt hafa leiðir til „sanngjarnra umskipta" með hag vinnandi fólks og almennings í huga. Alþýðusamband Íslands mun á nýju ári leggja áherslu á þessa umræðu og hvernig risastórar áskoranir geta verið stökkpallur til jöfnuðar og réttlætis.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.