Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, stéttarfélags háskólamenntaðs fólks, telur launamun og misskiptingu hér á landi vera allt of litla.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku sagði Kolbrún að tekjujöfnuður á Íslandi væri einna mestur í heiminum og það væri á kostnað millitekjuhópa og þeirra sem hafa háar tekjur.

Af þessu má leiða að Kolbrún vilji auka misskiptingu og koma henni í eldra horf. Týr telur þetta vera merkilegt viðhorf hjá fyrrum þingmanni Vinstri grænna. Forvitnilegt væri að leita viðbragða hjá þeim stjórnmálamönnum sem gala hæst um misskiptinguna hér á landi.

Meðal aðildarfélaga BHM eru stéttarfélög presta, tannlækna og lögfræðinga. Er einhver þeirrar skoðunar að laun þeirra sem tilheyra þessum stéttum hafi dregist aftur úr miðað við stéttir þar sem ekki er gerð krafa um háskólamenntun? Er urgur meðal tannlækna? Vilja prestar þjóðkirkjunnar aukna misskiptingu?

***

Týr telur BHM vera á nokkrum villigötum. Ástæðan er fyrst og fremst hin breiðvirka áhersla samtakanna um að kjör félagsmanna endurspegli menntun þeirra. Þessi krafa gengur ekki upp. Kjör manna eiga fyrst og fremst að endurspegla þau verðmæti sem þeir koma að því að skapa.

Á háskólamenntaður trompetleikari sem starfar hjá íslenska ríkinu sjálfkrafa rétt á launahækkun í kjölfar þess að kjör ræstingarfólks batna? Týr getur ekki svarað þeirri spurningu játandi.

***

Mikill meirihluti félagsmanna BHM starfar á opinbera markaðnum. Óumdeilt er að starfsmenn hjá hinu opinbera hafa verið leiðandi í launahækkunum um árabil. Í raun og veru hefur einhvers konar spekileki verið til staðar. Lögfræðingar í fjármálageiranum eiga þann draum heitastan að komast í starf í ráðuneytum svo eitthvað dæmi sé tekið.

Sé litið til áranna 2014 til 2021 sést að grunnlaun ríkisstarfsmanna og starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu um 56% annars vegar og 61% hins vegar. Á sama tíma hækkuðu laun á almenna markaðnum 43%. Þegar litið er til heildarlauna hækkuðu laun opinberra starfsmanna um 54% en 44% á almenna vinnumarkaðnum.

Af þessu má sjá að enn má setja bókvitið í askana þrátt fyrir fullyrðingar um annað.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2o. mars.