Á mánudag í síðustu viku birtist frétt í Morgunblaðinu um að þingmenn sem fjalla um ríkisborgararétt til umfjöllunar hafi afgreitt umsóknir frá fólki sem þeir eru í tengslum við annaðhvort persónulega eða vegna kynna úr fyrri störfum. Fréttin er skrifuð af Andrési Magnússyni, fyrrverandi blaðamanni Viðskiptablaðsins og núverandi fulltrúa ritstjóra á Morgunblaðinu. Í fréttinni staðfestir Arn­dís Anna Krist­ín­ar­dótt­ir Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Pírata, við Morg­un­blaðið að hún hafi fjallað um um­sókn­ir um rík­is­borg­ara­rétt frá eig­in skjól­stæðing­um í fyrra starfi og seg­ir að það eigi einnig við um aðra nefnd­ar­menn. Auk Arndísar sitja Jódís Skúladóttir frá Vinstri grænum og Birgir Þórarinsson frá Sjálfstæðisflokki í nefndinni sem afgreiðir slíkar umsóknir, en þau hafa bæði borið það af sér að hafa fjallað um mál fyrri skjólstæðinga enda hafi þau ekki sinnt hagsmunagæslu fyrir erlenda borgara.

Tilefni fréttarinnar var að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lét í veðri vaka á Alþingi fyrir skemmstu að einhverjir þingmenn kynnu að hafa setið beggja vegna borðs við afgreiðslu á umsóknum um ríkisborgararétt.

Arndís Anna var ósátt við þennan fréttaflutning og lét það í ljós í samfélagsmiðlum daginn eftir að fréttin birtist og sakar Andrés um skort á fagmennsku. Arndís skrifar:

„Ég hafði fengið veður af því að Andrés Magnússon væri ekki faglegasti blaðamaður landsins, en taldi nú samt óhætt að svara nokkrum spurningum sem hann sendi mér. Hér að neðan eru þær spurningar og mín svör. Metnaðurinn fyrir því að búa til skandal úr engu (úr því að ekkert reyndist til í því rugli í ráðherra að ég væri að þiggja mútur frá hælisleitendum) var svo mikill að það að „hafa haft kynni“ af fólki kallar hann tengsl. Nú hef ég haft kynni af blaðamanninum, rætt við hann í síma tvívegis og svarað tölvupósti frá honum. Erum við þá tengd, við Andrés?“

Svo birtir Arndís skrifleg samskipti sín við Andrés í tengslum við fréttina. Þar kemur ekkert fram sem rýrir gildi fréttarinnar að neinu leyti.

Aðrir fjölmiðlar birtu frétt um ósætti Arndísar en virtust sýna því lítinn áhuga að þarna var kona í valdastöðu að tala niður til og kasta rýrð á störf blaðamanns sem var ekki að gera neitt annað en að sinna störfum sínum með eðlilegum hætti. Fjölmiðlarýnir man í fljótu bragði ekki eftir neinu dæmi um að þingmaður hafi viðhaft slíkan atvinnuróg um nokkurn blaðamann, svo þar hefði verið eftir nokkru að slægjast.

Ekki varð heldur séð að nokkur miðlanna hefði spurt Andrés út í fréttina eða aðfinnslur Arndísar, hvað þá að farið hefði verið í saumana á henni og hvort fréttin stæðist gagnrýni. Þar var bara skrifað beint upp úr Facebook og engu bætt við fyrir lesandann.

Þögn Blaðamannafélagsins vakti ekki síður athygli. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður félagsins, hefur verið iðin við að stíga fram þegar ráðamenn og áhrifamenn í þjóðfélaginu hafa gagnrýnt blaðamenn fyrir störf þeirra og verið tíðrætt um þöggunartilburði í þeim efnum.
***

Meira um Sigríði Dögg. Rætt var við hana í Mannlega þættinum á Rás 1 á dögunum um veikindi sem hana hafa hrjáð. Sigríður Dögg er sem kunnugt er fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Þarna virðist því stefna í algjöra sjálfbærni í fréttum og dagskrárefni hjá ríkismiðlinum. Reyndar virðist ný stefna RÚV sem samþykkt var í haust hafa falið í sér áherslu á dagskrárgerð sem fjallar um heilsufar starfsmanna. Þannig var viðtal við Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur í þætti á Rás 1 um heilsu hennar eftir að hafa fætt tvíbura.

Vissulega getur verið hagræði í dagskrárgerð í því að fá bara starfsmenn í viðtöl. Að vísu sést það hagræði ekki í afkomu Ríkisútvarpsins en ríkismiðillinn tapaði 164 milljónum króna í fyrra. Tap er á rekstrinum þrátt fyrir að RÚV taki sífellt til sín stærri hlut á auglýsingamarkaðnum, en auglýsingatekjurnar jukust um 18% og námu 2,4 milljörðum króna.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.