„Við erum þroskað, fullorðið fólk,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um ákvörðun hennar um að strunsa út í fússi af þingi Alþýðusambandsins í haust. Á sama tíma sagði hún Ólöfu Helgu Adolfsdóttir, frambjóðanda í forsetakjöri ASÍ-þingsins, vera „veruleikafirrt, valdasjúk, siðferðislega gjaldþrota, smásál, smámenni, og svo vitlaus að hún veit ekki hversu vitlaus hún er“. Nú er komið nýtt ár og hrafnarnir eru ekki frá því að Sólveig Anna hafi þroskast og fullorðnast heilmikið frá því að þessi orð voru látin falla.

Nú í vikunni felldi félagsdómur þann dóm að ólöglegt hefði verið hjá Eflingu að segja Gabríel Benjamin, trúnaðarmanni VR á vinnustaðnum, upp störfum á sínum tíma. Sólveig gaf lítið fyrir þetta og sagði Gabríel vera „fáránlegan einstakling“ sem skrifar „snarbilaðar níðgreinar“.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 5. janúar 2023.