Gott skattkerfi þarf að byggja á einföldum reglum, sem tiltölulega auðvelt er að framkvæma og hóflegri álagningu. Nokkur umræða hefur farið fram hér á landi um fjármagnstekjuskatt, þ.e. kröfur um hærri skattprósentu og að útsvar yrði lagt á fjármagnstekjur. Þegar nánar er skoðað er málið flóknara en í fyrstu sýnist.

Fjármagnstekjuskattur er samheiti yfir ýmsa skatta sem lagðir eru á eignatekjur einstaklinga og lúta hver um sig mismunandi reglum. Á lögaðila er ekki lagður sérstakur fjármagnstekjuskattur því fjármagnstekjur þeirra eru hluti rekstrartekna. Það eru hins vegar lagðir sértækir skattar á fjármálafyrirtæki. Einstaklingar í atvinnurekstri greiða ekki fjármagnstekjuskatt af fjármagnstekjum sem tilheyra atvinnurekstri.

Fjármagnstekjuskattur er lagður á skattskyldar fjármagnstekjur einstaklinga, þ.e., vaxtatekjur, arð, söluhagnað, leigutekjur utan rekstrar og jafnvel höfundaréttargreiðslur. Söluhagnaður af fasteignum einstaklinga getur þó eftir atvikum verið skattfrjáls. Lítum á nokkur tilvik.

  • Verðbætur og gengishagnaður eru skattlögð sem fjármagnstekjur til viðbótar við hreinar vaxtatekjur.
  • Vaxtatekjur teljast með öðrum tekjum til stofns við útreikning á vaxtabótum og barna-bótum.
  • Fjármagnstekjur hafa áhrif til skerðingar á bótum almannatrygginga, svo sem ellilífeyri. Helmingur fjármagnstekna einstaklings í hjónabandi skerðir ellilífeyri maka viðkomandi.
  • Söluhagnaður einstaklinga af sölu íbúðarhúsnæðis, að uppfylltum skilyrðum sem margir uppfylla, er skattfrjáls.
  • Hagnaður af sölu hlutabréfa myndar stofn til fjármagnstekjuskatts sem mismunar þeim einstaklingum sem velja þetta sparnaðarform í samanburði við þá sem t.d. kaupa íbúð til útleigu. Almenna reglan er að hagnaður af sölu hlutabréfa er mismunur á kaupverði og söluverði án framreiknings, þ.e. verðbótahlutinn hagnaðarins er skattlagður. Benda má á að á árinu 2022 töpuðu margir einstaklingar háum fjárhæðum á verðlækkun hlutabréfa.
  • Arður einstaklinga af hlutabréfum er skattskyldur um 22% eftir að viðkomandi fyrirtæki hefur greitt 20% tekjuskatt af hagnaði (sem til stendur að hækka tímabundið í 21%). Þetta getur því orðið allt að 37,6% skattur ef öllum hagnaði er úthlutað sem arði (38,38% eftir tímabundna hækkun), sem þó gerist sjaldan nema helst í litlum einkahlutafélög-um.
  • Um skatt af leigutekjum gilda flóknar reglur en almennt er ekki greiddur fjármagns-tekjuskattur af 50% af tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis til leigjanda sem býr í húsnæðinu.
  • Útgreiddur séreignarsparnaður er skattlagður eins og um launatekjur sé að ræða, mismunandi eftir tekjuþrepum, en ekki sem fjármagnstekjuskattur. Stór hluti útgreidds séreignasparnaðar eru uppsafnaðir vextir.

Hugmyndir um að leggja útsvar á ofangreindar fjármagnstekjur til viðbótar við fjármagnstekjuskatt eru óraunhæfar. Það þarf frekar að einfalda reglur um skattlagningu fjármagnstekna og draga úr óréttlæti og skerðingum. Lítum á nokkur sjónarmið:

  • Mörgum skattgreiðendum finnst langt seilst og ósanngjarnt að þurfa að greiða fjármagnstekjuskatt af eðlilegum verðbótum og gengishagnaði. Að skattleggja gengishagnað er löngu úrelt en var talið eðlilegt fyrir 30-50 árum síðan þegar reglulega var um stórar gengisfellingar var að ræða.
  • Skattgreiðendur eru margir ekki sáttir við að vaxtatekjur af sparnaði leiði til skerðinga á ellilífeyri og bótagreiðslum.
  • Húseigendum á höfuðborgarsvæðinu finnst mörgum að gífurlegar hækkanir á fasteigna-skatti sveitarfélaga vegna hækkandi fasteignamats undanfarin ár séu ígildi eignaskatts.
  • Margir einstaklingar sem ekki eru opinberir starfsmenn og njóta takmarkaðra greiðslna úr lífeyrissjóðum, hafa í gegnum árin byggt upp sparnað til efri áranna, t.d. með kaupum á verðbréfum eða íbúðum til útleigu. Með hækkun á fjármagnstekjuskatti væri verið að refsa þessu fólki og auka enn á mismun á milli þeirra lífeyrisþega sem hafa starfað á almennum vinnumarkaði og lífeyrisþega úr hópi opinberra starfsmanna.
  • Í skattlagningu á eignatekjum þarf að gæta jafnræðis á milli einstaklinga og lögaðila. Ef fjármagnstekjuskattur einstaklinga er hækkaður má búast við að fleiri og fleiri kjósi þá leið að stofna einkahlutafélag utan um verðbréfaeign sína og húseignir og nýta sér þá skattalegu kosti sem geta fylgt slíku fyrirkomulagi.
  • Ef gengið er of hart fram í skattlagningu gagnvart einstaklingum finna þeir yfirleitt leiðir til undanskota og sniðgöngu og fara jafnvel í auknum mæli með fjármuni sína úr landi, flytja ekki erlendar fjármagnstekjur til Íslands, né selja fasteignir sínar erlendis og flytja ekki söluandvirðið heim.

Umræða um skattamál mótast gjarnan af öfund og óánægju fólks með misskiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Nýjar hugmyndir um skattlagningu snúast því oft um að finna leiðir til að láta breiðu bökin greiða meira til samfélagsins, frekar en að nálgast skattlagninguna af meira hlutleysi og fagmennsku með það að markmiði að auka tekjur ríkissjóðs.

Fjármagnstekjur einstaklinga eru aðeins 4-5% af skatttekjum ríkissjóðs á meðan virðisaukaskattur er 38-39%. Hvað auknar skatttekjur varðar er eftir langmestu að slægjast fyrir ríkissjóð með því að endurbæta og endurhugsa lög og reglur um virðisaukaskatt, jafnvel breikka skattstofninn, fækka undanþágum og breyta reglum um endurgreiðslur, m.a. til að draga úr undanskotum.

Það er margvísleg starfsemi í landinu þar sem endurhugsa mætti álagningu og óskilvirkt fyrirkomulag virðisaukaskatts til að auka tekjur ríkissjóðs. Ég nefni sem dæmi skilvirkara fyrirkomulag virðisaukaskatts tengt sveitarfélögum, veitufyrirtækjum, byggingarstarfsemi, vátryggingum, fjármálaþjónustu og þjónustukaupum opinberra stofnana. Þar er verk að vinna.