*

miðvikudagur, 27. október 2021
Heiðrún Lind Marteinsd.
24. september 2021 15:01

Umhverfisslys í uppsiglingu

Í aðdraganda kosninga ræða sumir um stórfelldar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Haraldur Guðjónsson

Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur stuðlað að stórfelldum olíusamdrætti í fiskiskipaflotanum. Frá árinu 2005 hefur olíunotkun dregist saman um 40% og stefnt er að 50% samdrætti fyrir árið 2030. Loftslagsmál voru þó ekki efst í huga alþingismanna þegar fiskveiðistjórnunarkerfinu var komið á.

Þegar lög um stjórn fiskveiða voru upphaflega sett var það til að bregðast við bæði ofveiði og efnahagslegri nauðsyn. Vegferðin var löng og lærdómurinn mikill. Grunnstefið í fiskveiðistjórnunarkerfinu er að tryggja að veiðiálag sé hóflegt og nýting sjálfbær. Tveir þættir hafa jafnframt verið ráðandi í því að tryggja árangur og arðsemi í sjávarútvegi; varanleiki og öryggi aflaheimilda og frjálst framsal aflaheimilda. Fyrirjáanleiki og langtímahugsun hafa þannig verið fest í sessi.

Í þessum aðstæðum felst einstakt kjörlendi fyrir fyrirtæki til að auka verðmætasköpun – fjárfesta í aflaheimildum, sparneytnari skipum, búnaði, tækni, rannsóknum og þróun. Það er ekki tjaldað til einnar nætur. Fyrirtækin hafa tekið á sig miklar fjárhagslegar skuldbindingar og áhættu, á þeirri forsendu að tekjur verði skapaðar í framtíð á grundvelli gildandi kerfis. Samdráttur í olíunotkun er jákvætt afsprengi þessa.

Í aðdraganda kosninga ræða sumir um stórfelldar breytingar á kerfinu; uppboð, innköllun aflaheimilda, frjálsar handfæraveiðar, aðskilnað veiða og vinnslu, svo fátt eitt sé nefnt. Í því samhengi mætti hafa í huga, að boðaðar breytingar á lykilþáttum fiskveiðistjórnunarkerfisins munu hafa veruleg áhrif á það hvort sjávarútvegi takist að draga enn frekar úr áhrifum á umhverfið.

Þar sem við erum fiskveiðiþjóð, er sjávarútvegur sannarlega hluti af vandamálinu í loftslagsmálum, en um leið mikilvægur þáttur í lausninni. Það fer þess vegna illa á því, að tæta í sundur þá þætti í sjávarútvegi sem sýnt er að tryggi enn frekari samdrátt í notkun á jarðefnaeldsneyti. Umbylting á kerfinu væri ávísun á stöðnun eða aukin umhverfisáhrif.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.