*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Svavar Halldórsson
23. janúar 2021 13:43

Umhverfisvæn gjaldeyrisöflun með nýsköpun

Eina vitræna leiðin út úr Kóvíd kreppunni að auka verðmætasköpun með nýtingu hugvits og umhverfisvænni nýsköpun.

Verksmiðja Algalífs.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýlegri skýrslu er reiknað með því að framleiðsluvirði þörunga á heimsvísu hafi í fyrsta skipti farið yfir sem nemur 100 milljörðum íslenskra króna í fyrra. Þessi geiri mun stækka um rúm 50% á næstu árum að mati skýrsluhöfunda og brjóta 150 milljarða múrinn 2027. Af þessu eiga íslensk fyrirtæki hluta. Þeirra langöflugast er líftæknifyrirtækið Algalíf, sem nýlega kynnti áform sín um fjögurra milljarða stækkun og rúmlega þreföldun í framleiðslugetu.

Þetta eru háar tölur, en þó er ekki inni í þeim allur sá virðisauki sem verður til á smásölustigi. Ekki eru til áreiðanlegar upplýsingar um samanlagt virði þörungaafurða í smásölu, en gera má ráð fyrir því að það sé tvö- eða þrefalt framleiðsluvirðið, eða 300 til 500 milljarðar króna. Í heiminum öllum starfa þúsundir manna við þessa grein. Því er gleðilegt þegar fréttir berast af stórhuga fyrirtækjum í örþörungaframleiðslu sem herða sóknina þegar gefur á bátinn í öðrum greinum.

Hratt vaxandi markaður

Fyrrnefnd stækkun Algalífs mun skapa tugi framtíðarstarfa fyrir vel hæft menntafólk og verða Reykjanesbæ mikilvæg uppspretta framtíðartekna á næstu áratugum. Svo ekki sé minnst á öll þau störf sem verða til á framkvæmdatímanum. Fyrirtækið ræktar núna eina tegund ofur smárra þörunga í vatnsrörakerfum og úr þeim er svo unnið fæðubótaefnið astaxanthín. Íþróttafólk, eldri borgarar og annað áhugafólk um heilbrigði og heilsu tekur svo efnið inn daglega, rétt eins og lýsi. Þetta er náttúruefni sem fyrirfinnst í ýmiss konar fiski, þara og öðru sjávarfangi.

Markaður fyrir vítamín, bætiefni og ýmiss konar heilsubótafæðu hefur vaxið hröðum skrefum í Kóvíd faraldrinum. Í sumum tilfellum hefur sala á einstaka flokkum aukist um tugi prósentna. Höfundar skýrslunnar sem vitnað var til í upphafi, setja þann fyrirvara við spár sínar, að líklega séu þær helst til íhaldssamar því vöxturinn í þessum geira muni jafnvel verða enn meiri vegna aukinnar meðvitundar fólks um heilsu og hollustu.

Ísland er rétti staðurinn

Það sem þarf til þess að rækta þörunga með skilvirkum hætti er þekking og aðgengi að réttum náttúruauðlindum. Ræktun í nákvæmlega stýrðum vatnspípukerfum er sú aðferð sem best hefur reynst hvað varðar afköst og framlegð. Í raun er um að ræða nokkurs konar gróðurhúsaræktun. Hér á landi búum við að hreinu náttúrulegu vatni, grænni orku og náttúrulegri vindkælingu. Því eru kjöraðstæður til hátæknilegrar þörungaræktunar á Íslandi.

Þessu til viðbótar hefur orðið til mikilvæg þekking hér á síðustu árum. Bæði búum við að góðum og vel menntuðum vísindamönnum og ekki að síður að vel hæfum og reyndum stjórnendum í greininni. Fram kom í fréttum af stækkun Algalífs að öll framleiðslan sé seld og að fyrirtækið sé nú rekið með hagnaði. Það hlýtur að teljast harla gott hjá nýsköpunarfyrirtæki á krepputímum. En það sem auðvitað skiptir mestu er að sölukerfið sé til staðar svo afla megi gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið. Ef salan gengur illa verða tekjurnar litlar og þar með hinn samfélagslegi ávinningur.

Mikilvægt að nýta tækifærin

Það liggja mikil tækifæri í að nýta frumkvöðlakraft allra þeirra vísinda- og athafnamanna sem dregið hafa vagninn í þessum geira hér á landi. Fjögurra milljarða fjárfestingin á Suðurnesjum sýnir svo ekki verður um villst, að erlendir fjárfestar hafa trú á þessum geira. Afurðir úr örþörungum sem framleiddar eru hér á landi, eru nánast allar fluttar út og skapa gjaldeyri.

Að mati undirritaðs er ljóst að eina vitræna leiðin til að komast út úr Kóvíd kreppunni er að auka verðmætasköpun með nýtingu hugvits og umhverfisvænni nýsköpun. Mikilvægt er að ríkið standi ekki í vegi fyrir slíku með óskilvirku og gamaldags stofnanakerfi og regluverki. Það væri að öllum líkindum líka gáfulegt fyrir bólgna lífeyrissjóði landsins að skoða þennan geira af fullri alvöru.

Höfundur er landsfundarkjörinn í atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.