*

mánudagur, 13. júlí 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
25. maí 2017 10:01

Vandrataður vegur

„Fækkun starfa við veiðar og vinnslu er þannig óhjákvæmilegur þáttur í því markmiði stjórnvalda og atvinnulífs að knýja framþróun áfram og auka framleiðni, til ábata og hagsældar fyrir samfélagið allt,“ skrifar Heiðrún Lind.

Haraldur Guðjónsson

Árið 2012 kom út skýrsla erlenda ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um Ísland og vaxtarmöguleika í framtíð­ inni. Í niðurstöðu hennar kom fram að íslenskur sjávarútvegur væri í fararbroddi í framleiðni. Vaxtamöguleikar greinarinnar til framtíðar lægju í fjárfestingum, tæknivæðingu og stöð­ ugu lagaumhverfi og með þeim hætti mætti auka enn framleiðni.

Niðurstaða McKinsey endurspeglast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021. Þar er mikilvægi aukinnar framleiðni áréttað og orðrétt segir: „Aukin framleiðni er grundvöllur aukins kaupmáttar og velferðar í þjóðfélaginu, en þumalfingursregla er að kaupmáttur geti vaxið árlega sem nemur vexti framleiðni. Því verður ekki horft framhjá mikilvægi framleiðnivaxtar fyrir aukna velmegun.“

Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa verið í sögulegu hámarki. Árin 2014 og 2015 voru fjárfestingar alls 53 ma.kr. Þær felast bæði í nýjum skipum og tæknivæddum fiskvinnslum um land allt. Fjárfestingar þessar eru nauðsynlegt lóð á vogarskálar framleiðniaukningar og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Þá byggir hin nýja tækni að mestu leyti á íslensku hugviti og er afrakstur náins samstarfs sjávarútvegs og íslenskra iðnfyrirtækja.

Þar sem tækni fleygir fram á ljóshraða er ljóst að mannshöndin mun í minni mæli koma að framleiðslunni. Fækkun starfa við veiðar og vinnslu er þannig óhjákvæmilegur þáttur í því markmiði stjórnvalda og atvinnulífs að knýja framþróun áfram og auka framleiðni, til ábata og hagsældar fyrir samfélagið allt. Á móti þessari fækkun vegur hins vegar ört stækkandi iðnaður tækni og nýsköpunar. Í þessari þróun felst sjávarútvegur framtíð­arinnar og störf næstu kynslóða.

Stjórnvöld og atvinnulíf bera sameiginlega ábyrgð á því að undirbúa og bregðast við breyttu landslagi. Á hinum vandrataða vegi aukinnar framleiðni getur hvorugt án hins verið. Stjórnvöld og atvinnulíf þurfa því að ganga veginn í takt og takast á við þær áskoranir og þau fjölmörgu tækifæri sem á vegi þeirra verða.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.