Það stóð í hröfnunum þegar þeir fylgdust með Rannveigu Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra lýsa því yfir á vaxtaákvörðunarfundinum í vikunni að það væri sín persónulega skoðun að skilvirkast væri að hækka skatta til að koma böndum á ríkisfjármálin.

Orðrétt sagði Rannveig: „Eins og Ásgeir segir höfum við yfirleitt ekki sérstaka skoðun á því hvað ríkissjóður gerir eða ekki. En ef ég tala fyrir sjálfa mig held ég að það hefði hjálpað til og myndi hjálpa til ef gripið yrði til einhverra aðgerða á tekjuhliðinni sem virkuðu hratt og dragi þá líka úr eftirspurn. En það er nú bara mín skoðun.“

Vafalaust munu þau öfl sem telja allra meina bót að hækka skatta og leggja á nýja – sérstaklega á atvinnugreinar sem þeim eru í nöp við - vísa til orða aðstoðarseðlabankastjóra í pólitískri baráttu næstu missera.

Hrafnarnir minnast orða Churchill um að reyna að skattleggja sig til betri lífskjara sé eins og fyrir mann að standa í fötu og toga í handfangið til að reyna að lyfta sér upp. Þetta á enn vel við og mun skilvirkara er fyrir ríkið að draga úr útgjöldum til þess að draga úr þenslu og koma á verðstöðugleika með lægri vöxtum.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.