Ávegum samgönguráðherra er að störfum starfshópur sem er að greina hvernig umfangsmiklum framkvæmdum við stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu verði best háttað. Sá möguleiki er uppi að fjármagna framkvæmdir með veggjöldum (stundum nefnd vegatollar eða vegaskattar). Í umræðunni hefur verið bent á að ríkið fái á þessu ári um 70 milljarða kr. í formi skatta og gjalda af bifreiðum og ef aðeins helmingur af þeirri fjárhæð rynni til framkvæmda í vegakerfinu, væru hugmyndir um veggjöld ekki uppi á borðinu. Er þar væntanlega verið að vísa til ýmissa skatta, s.s. vörugjalda og virðisaukaskatts af kaupum á nýjum bílum, eldsneyti og varahlutum.

Í báðum tilvikum snýr umræðan að eyrnamerkingu skatta, þ.e. í stað þess að safna öllum skatttekjum saman í einn stóran pott sem stjórnvöld geta ráðstafað á þann máta sem þau vilja, er skatttekjum vegna tiltekins skatts ráðstafað til fjármögnunar á tilteknu verkefni. Í ljósi umræðunnar er vert að skoða þau sjónarmið sem almennt hefur verið litið til þegar til eyrnamerking skatta ber á góma.

Kostir og ókostir

Eyrnamerking skatta hefur ákveðna kosti. Þar sem skattarnir eru tengdir ákveðnum útgjöldum eru þeir t.d. gagnsærri og almennt er gagnsæið til þess fallið að auka tiltrú skattgreiðenda og gera þá jákvæðari gagnvart sköttum og viljugri til að greiða þá, sérstaklega þegar þeir eru hækkaðir eða fyrst kynntir til sögunnar. Þá má segja að eyrnamerking skatta geti aukið lýðræði, þar sem kjósendum getur staðið til boða að kjósa með beinni hætti um ráð­ stöfun skatttekna ríkisins og leggja minna traust á sjálfstæðar ákvarð­ anir stjórnmálamanna.

Aftur á móti eru ákveðin vandamál við eyrnamerkingu skatta. Eyrnamerktir skattar eru t.d. ekki líklegir til að skila hæfilegum tekjum hverju sinni. Ýmist getur skattstofninn verið veikur og ekki aflað nægilegra tekna, eða sterkur og skilað ofgnótt tekna, sem leitt getur til sóunar á almannafé. Það er hægt að komast framhjá þessu með því að horfa til nokkurra ára í senn eða með tíðum skattalagabreytingum, en það dregur aftur á móti úr hagkvæmni eða skilvirkni slíkra skatta.

Sanngirni á móti hagkvæmni

Af framangreindu má ráða að eyrnamerktir skattar eru kannski ekki eins hagkvæmir og skilvirkir og hefðbundnir skattar, en á hinn bóginn fela þeir í sér aukið gagnsæi og vissu fyrir skattgreiðendur og þykja þar af leiðandi sanngjarnari eða réttlátari. Þarna vegast á markmið sem Adam Smith hélt fram í Auðlegð þjóðanna (1776) að skattkerfi þyrftu m.a. að leitast við að ná, þ.e. annars vegar hagkvæmni/skilvirkni (e. economy/efficiency) og hins vegar sanngirni og skýrleika (e. equity and certainty). Þessi markmið eiga ekkert síður við í nútímaskattkerfum og þar sem þau vegast á í tilviki eyrnamerktra skatta, hefur verið talið rétt að gæta hófs við eyrnamerkingu og nota hana skynsamlega, þar sem reynt er að finna jafnvægi á milli þessara markmiða.

Formleg og óformleg tenging

Þannig hefur verið talið að föst tenging eða formleg eyrnamerking skatts komi helst til greina þegar (1) verkefnið sem verið er að fjármagna er hægt að fjármagna eingöngu með umræddum skatti og (2) þegar fyrir hendi eru skýr tengsl á milli þeirrar fjárhæðar sem skatturinn aflar og þeirrar fjárhæðar sem þarf í verkefnið. Afnotagjöld að ríkisfjölmiðli og veggjöld eru dæmi um skatta sem uppfylla þessi skilyrði. Atvinnutryggingagjald sem fjármagnar atvinnuleysistryggingasjóð og er hluti af tryggingagjaldi er dæmi um skatt sem segja má að geri það ekki, en sjóðurinn er oft ýmist gildur sem leitt getur til sóunar á almannafé eða rýr. Þá er atvinnutryggingagjaldinu oft breytt og ríkið hefur þurft að leggja sjóðnum til fé af almennu skattfé. Það hefur einnig verið talið koma til álita að tengja skatta og útgjöld með óbeinum eða óformlegum hætti. Þótt ekki væri fyrir annað en að almenningur gerði sér betur grein fyrir þeirri staðreynd að viðbótarútgjöld hins opinbera krefjast viðbótarskattlagningar (eða niðurskurði í öðrum verkefnum). Til að skattahækkun hljóti hylli almennings hefur verið talið mikilvægt að slíkar tengingar feli í sér rökrétt samhengi á milli skatts eða skattahækkunar og viðbótarútgjalda. Dæmi um slíka tengingu gæti verið hækkun skatts á tóbak og eyrnamerking viðbótarteknanna til heilbrigðiskerfisins. Annað dæmi gæti verið hækkun erfðafjárskatts en samsvarandi lækkun fasteignagjalda á lífeyrisþega (með tilheyrandi millifærslu á milli ríkis og sveitarfélaga)

Höfundur er lögfræðingur hjá EY, endurskoðun og ráðgjöf .