Undanfarna daga hafa verið fluttar fréttir af hagnaði útgerða eins og Síldarvinnslunnar, Samherja og fleiri fyrirtækja. Svo mikill er hagnaðurinn að formaður borgarráðs í stærsta útgerðarplássi landsins varð bálreiður og stökk langt upp á nef sér. Aðrir stjórnmálamenn og álitsgjafar hafa stokkið á vagninn og af honum básúna þeir hvað þetta sé allt svo ósanngjarnt, ef veiðigjaldið hefði nú ekki verið lækkað væri ríkissjóður að bólgna út og ekkert þyrfti að skera niður. Það er bara einn feill í þessu öllu saman.

Flest af þessum fyrirtækjum sem um ræðir eru með stóran hluta af afla sínum í uppsjávarfiski og veiðigjald á uppsjávarafla, sem er síld, loðna, kolmunni og makríll, var hækkað all verulega í sumar. Sérstakt veiðigjald á hvert þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum fór í sumar úr 27,5 kr. í 38,25 kr. Veiðigjald á uppsjávarafla var hækkað um 40%!

Vegna framgöngu núverandi ríkisstjórnarmeirihluta mun Síldarvinnslan skila minni arði en ella á næsta ári. Svo römm er þessi hækkun að áhöld eru um hvort veiðar á kolmunna muni standa undir sér á þessu fiskveiðiári. Að minnsta kosti er fullt tilefni til að skoða það betur í vetur.

Þessi hækkun er öllum vinstri mönnum gleymd í umræðunni. Þar er blásið og blásið og talað um 10 milljarða lækkun, sem undirstrikar hve talnaglöggir menn eru á þeim bænum. Það var þess vegna hressandi að sjá að Jón Júlíus Karlsson, blaðamaður á Vísi, birti skárra mat í sömu frétt og sagt var frá að formaður borgarráðs væri bálreiður og saknaði þess að stjórnmálamenn hefðu ekki 10 þúsund milljónum meira milli handanna frá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Jón Júlíus sagði frá því að lækkunin væri líklega 3,2 ma. í heildina og öll og rúmlega það í bolfiski. Það er ekki oft sem maður sér flett ofan af lýðskrumi með jafn afgerandi hætti.

Hið rétta er að almennt og sérstakt veiðigjald mun skila 10 þúsund milljónum króna í ríkiskassann. Svo borga þessi fyrirtæki alla aðra almenna skatta sem atvinnulífið greiðir.

Staðreyndin var sú að lög um veiðigjald voru gölluð og óframkvæmanleg, unnin með olnboganum og rassgatinu eins og svo margt annað í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar fyrir utan voru þau ósanngjörn og komu sérstaklega illa niður á smærri og meðalstórum útgerðum.

Það sem þau sýndu hinsvegar og umræðan nú sýnir enn, er að vinstri menn hafa þá sýn á atvinnulífið að arður sé þjófnaður og beri að gera upptækan. Það er það sem formaður borgarráðs í stærsta útgerðarplássi Íslands kallar jafnaðarstefnu.

Pistill Friðjóns birtist í Viðskiptablaðinu 12. september 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .