*

laugardagur, 5. desember 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
14. maí 2020 20:11

Vendir vandlætingar

Á bæði stjórnvöldum og atvinnulífi hefur verið barið fyrir ákvarðanir tengdar hlutabótaleiðinni svokölluðu.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson kynna aðgerðarpakka í Safnahúsinu í apríl.
Eyþór Árnason

Á umliðnum vikum hefur allt kapp verið lagt á að milda efnahagslegt áfall af völdum COVID-19. Hvernig það verkefni skuli leyst er margslungin þraut og mæling á árangri verður því miður ekki gerð með sýnatökupinna.

Stjórnvöld hér á landi brugðust nokkuð skjótt við yfirvofandi vá og kynntu fjölda aðgerða til að koma fólki og fyrirtækjum í skjól. Sumar aðgerðir voru stórar, aðrar minni. Sumar voru flóknar, aðrar einfaldar. Þrátt fyrir gott teymi, hefur enginn menntun eða reynslu til að takast á við nákvæmlega þessar efnahagslegu aðstæður. Við verðum því að vera raunsæ og viðurkenna að sumar aðgerðanna munu skila árangri, aðrar ekki. Í sumum tilvikum kunna stjórnvöld að hafa gengið of langt, í öðrum of skammt.

Það sama á við um ákvarðanir sem stjórnendur fyrirtækja standa frammi fyrir í glímunni við óreyndar aðstæður. Á hverjum einasta degi þarf að taka óvenjulegar ákvarðanir, erfiðar ákvarðanir. Sumar þeirra munu reynast farsælar, aðrar ekki.

Ákvarðanir stjórnvalda og stjórnenda fyrirtækja eru ekki hafnar yfir gagnrýni. En höggin af vendi vandlætingar vegna einstakra ákvarðana í erfiðum aðstæðum mega ekki verða svo þung að aðila brestur kjarkur til að taka yfir höfuð ákvarðanir. Því miður hafa umliðnir dagar borið þessa merki. Á bæði stjórnvöldum og atvinnulífi hefur verið barið fyrir ákvarðanir tengdar hlutabótaleiðinni svokölluðu.

Gerðu þessir aðilar allir, eftir á að hyggja, allt rétt? Nei, alveg örugglega ekki. En þeir tóku hins vegar ákvarðanir í efnahagslegum hvirfilbyl og miðað við afleitt skyggni á þeim tíma. Þær ákvarðanir voru að líkindum hvorki einfaldar né léttvægar. Hvirfilbylurinn gat, og getur enn, splundrað efnahag landsins eða einstökum fyrirtækjum. Þeir sem hafa tekið sér vendi vandlætingar í hönd ættu að hafa þessa einu forsendu í huga áður en reitt er til höggs. Um annað er ekki beðið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.