*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Michael Mann
28. janúar 2019 10:01

Viðskiptamynt númer eitt

„Skoðun sem er svo fjarri veruleikanum að mér er skylt að bregðast við.“

Höskuldur Marselíusarson

Við hjá sendinefnd Evrópusambandsins erum dyggir lesendur Viðskiptablaðsins, enda vekur blaðið gjarnan hjá okkur mikinn áhuga. En á stundum veldur það einnig áhyggjum. Það er vel þekkt að ritstjórnarsíður þessa ágæta blaðs, svo sem hinn andlitslausi Óðinn, eru oftar en ekki afar gagnrýnar í garð ESB, langstærsta einstaka markaðar Íslands. Ekkert út á það að setja, blaðið hefur að sjálfsögðu fullan rétt á sínum skoðunum. En það er verra þegar staðreyndavillur fá einnig að flakka með. Ég, sem Breti, verð afar áhyggjufullur þegar ég sé þetta tvennt fara saman. Eins og ég hef einnig tjáð lesendum Morgunblaðsins þá hef ég séð hvað áratugir af áróðri, byggðum á hálfsannleika, gerðu breskum almenningi. Og afleiðingarnar fyrir Breta, sem eru núna fyrst að koma í ljós, eru skelfilegar.

Ég vil nefna eitt nýlegt dæmi. Þann 4. janúar sagði í leiðara Viðskiptablaðsins að ekki megi finna „minnsta pólitískan stuðning við það í nokkru ríki ESB, að auka fjármálalega samþættingu þess með skuldabandalagi, sameiginlegum fjármálum eða því líku“. Þessi setning er sett fram sem staðreynd en ekki skoðun og hún er svo fjarri veruleikanum að mér er skylt að bregðast við.

Stuðningur meðal almennings

Byrjum á stuðningi mikilvægasta hópsins, almennings: Samkvæmt Eurobarometer skoðanakönnuninni frá nóvember síðastliðnum hefur ekki mælst meiri stuðningur við evruna síðan mælingar hófust árið 2002. Tvö ár í röð hafa 74% íbúa evrusvæðisins sagt evruna vera jákvæða fyrir Evrópusambandið og 69% segja nú að þörf sé á nánari samhæfingu efnahagsstefnu svæðisins. Ég læt fljóta hér með að hingað til hefur mest andstaða við evruna verið innan ESB ríkjanna sem eru ekki með evru. En í fyrra mældist meirihluti fyrir upptöku evru meðal borgara landanna sem enn eiga eftir að taka upp evru. Stuðningur meðal leiðtoganna Evrópusambandið er löndin sem það mynda. Án stuðnings ríkisstjórna þess getum við lítið sem ekkert aðhafst. Það eru einungis tvö lönd innan ESB sem fyrir löngu síðan ákváðu að standa utan evrusamstarfsins (og af þeim er gjaldmiðill Danmerkur, eins og vel er þekkt, nátengdur hinum sameiginlega gjaldmiðli). Forseti Frakklands hefur verið í fararbroddi og ekki farið leynt með draum sinn um að koma á sameiginlegri fjárhagsáætlun fyrir evrusvæðið og kanslari Þýskalands hefur tekið vel í þær hugmyndir, með það að markmiði að ná fram meira samræmi og samkeppnishæfni innan svæðisins.

En ekki nóg með þessi tvö stóru. Í desember veittu 19 leiðtogar evruríkjanna blessun sína til að efnahags- og fjármálalegt samband ríkjanna yrði dýpkað enn frekar. Einnig lönd utan evrunnar, svo sem Danmörk, hafa lýst skoðunum sínum á því hvernig styrkja beri Efnahags- og myntbandalagið. Eitt landið vill e.t.v. skuldabandalag en annað sameiginlegan gjaldeyrissjóð en það sem þau eiga sameiginlegt er að vilja styrkja samvinnuna. Ég á því mjög bágt með að sjá þennan meinta skort á pólitískum stuðningi sem leiðarahöfundur vísaði til.

Stuðningur ESB

Um stuðning stofnana Evrópusambandsins við nánari samvinnu í efnahagsmálum þarf ég ekki að fjölyrða. Framkvæmdastjórn ESB framfylgir að sjálfsögðu vilja almennings og leiðtoga Evrópu. Hún hefur unnið sleitulaust að evru-umbótum síðan 2008 kreppan hófst. Við munum halda því áfram eins lengi og það tekur að tryggja trausta framtíð og örugga.

Fyrir utan aðildarríki (ráðherraráð) og framkvæmdastjórn ESB, bendi ég á að á gamlársdag hvatti forseti hins lýðræðislega kjörna Evrópuþings einnig til þess að „Evrópusambandið legði lokahönd á Efnahags- og myntbandalagið okkar, með sönnum fjárhagslegum og pólitískum samruna“. Allar helstu stofnanir ESB vilja sumsé styrkja evrusvæðið með aukinni samvinnu og áframhaldandi stöðugleika.

Til hamingju með afmælið!

Að lokum langar mig að óska lesendum Viðskiptablaðsins, og höfundum þess einnig, innilega til hamingju með þau tímamót að nú eru 20 ár frá því að innleiðing evrunnar hófst í ESB löndunum. Það er full ástæða til að fagna evrunni af heilum hug, að minnsta kosti frá viðskiptalegu sjónarhorni séð. Án stöðugs gjaldmiðils ESB hefði vafalaust verið flóknara fyrir Ísland að fóta sig í umróti síðasta áratugar.

Ég hvet lesendur til að ímynda sér með mér örskamma stund hvernig hefði farið í 2008 kreppunni ef það hefðu verið 28 gjaldmiðlar innan ESB. Og löndin hefðu öll barist um að gera sinn gjaldmiðil sem hlutfallslega ódýrastan. Hugsum um allar eignirnar og verðmætin sem hefðu farið forgörðum. Launin og lífskjörin, sem hefðu sjálfkrafa horfið án þess að spyrja hvorki verkalýðsfélög né atvinnurekendur. Ímyndum okkur aðeins afleiðingar verðbólgunnar sem hefði geisað í kjölfarið. Ímyndum okkur allt öngþveitið og óreiðuna sem hefði bæst við öll hin vandræðin. Það er ekki fögur sjón. En að ímynda sér framtíð án evrunnar? Nei, það getum við ekki. 

Höfundur er sendiherra ESB á Íslandi

Stikkorð: ESB evran Michael Mann
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.