Eftir rúmar þrjár vikur, eða þann 1. nóvember, rennur Lífskjarasamingurinn út. Miðað við ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar er alveg ljóst að framundan eru erfiðar kjaraviðræður og í raun erfitt að sjá annað en að lendingin verði skammtímasamningur.

Það eru samt alls ekki bara efnahagsmálin og himinhá verðbólga, sem gera nýja samninga torsótta, heldur einnig ástandið innan verkalýðshreyfingarinnar. Átökin innan hennar eru fyrir löngu orðin reyfarakennd. Hafa þau einkennst af óbilgirni og frekju þriggja verkalýðsleiðtoga. Þessir leiðtogar stýra tveimur stærstu stéttarfélögum landsins og fjölmennasta landssambandi launafólks en það er ekki nóg því þeir vilja stýra öllu og stefna nú að því að sölsa undir sig Alþýðusambandi Íslands.

Í næstu viku mun draga til tíðinda í þessum málum því þriggja daga þing Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefst á mánudaginn. Þar verður nýr forseti ASÍ kjörinn, sem og varaforsetar.

Verkalýðsleiðtogarnir þrír eru auðvitað Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambands Íslands, sem er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ. Ragnar Þór vill verða formaður ASÍ, Sólveig Anna 2. varaforseti og Vilhjálmur 3. varaforseti.

Átökin innan verkalýðshreyfingarinnar hverfast um þremenningana. Það er merkilegt til þess að hugsa að á rúmum tveimur árum hafa þrír helstu forsvarsmenn ASÍ sagt af sér – forseti ASÍ, 1. varaforseti og 2. varaforseti.

Þetta byrjaði vorið 2020 þegar Vilhjálmur Birgisson sagði af sér sem 1. varaforseti. Var það vegna þess að hann fékk ekki sínu fram og var ósáttur við að meirihluti samninganefndar ASÍ hafi hafnað tillögu hans um að lækka tímabundið mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna um 3,5% í kóvid-kreppunni. Ragnar Þór sagði sig reyndar úr miðstjórn ASÍ útaf þessu sama máli, sem og Harpa Sævarsdóttir, varaformaður VR.

Í nóvember 2021 sagði Sólveig Anna Jónsdóttir af sér sem 2. varaforseti ASÍ.  Aðdragandinn og reyndar eftirmálin voru hreint ótrúleg. Verkalýðsforinginn lenti upp á kant við við starfsfólk á skrifstofu Eflingar, sem lauk með því að hún sagði af sér sem formaður stéttarfélagsins. Þar með gat hún auðvitað ekki verið varaforseti ASÍ lengur.

Sólveig Anna var samt ekki af baki dottin því í febrúar síðastliðnum bauð hún sig aftur fram til formanns og náði kosningu með 52% atkvæða, sem var léleg útkoma miðað viða að árið 2018 fékk hún 80%. Fyrsta verk hennar og nýrrar stjórnar Eflingar var að segja öllu starfsfólki skrifstofu Eflingar, ríflega fimmtíu manns, upp störfum vegna skipulagsbreytinga. Hjá fyrirtækjum er farið í skipulagsbreytingar til að forðast hópuppsagnir en hjá Eflingu var þessu snúið á hvolf. Enda voru þetta bara hreinsanir.

Í ágúst síðastliðnum gafst Drífa Snædal svo upp og sagði af sér sem forseti ASÍ. Sagði hún að blokkamyndun og samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan ASÍ gerðu henni ókleift að starfa áfram — átökin hefðu verið óbærileg.

Fyrstu viðbrögð Sólveigar Önnu við afsögn Drífu var að segja að ákvörðunin hefði ekki komið óvart, hún hefði verið tímabær. Áður hafði Vilhjálmur sakað Drífu um ómerkilegheit og sagt hennar tíma sem forseta ASÍ liðinn. Þetta segir meira en mörg orð um þankaganginn og yfirganginn.

Samkvæmt öllum bókum er Drífa vinstri sinnuð. Hún var framkvæmdastýra Vinstri grænna um tíma og sagði sig meira að segja úr flokknum til að mótmæla stjórnarsamstarfi VG með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum árið 2017. Þremenningarnir, sem hafa gagnrýnt hafa Drífu sleitulaust undanfarin misseri, standa einhvers staðar allt annarsstaðar á ásnum.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem tók við sem forseti ASÍ þegar Drífa hætti, sagði í ágúst að hann útilokaði ekki að gefa kost á sér í embætti forseta á þinginu. Eftir að Ragnar Þór tilkynnti framboð lúffaði Kristján Þórður hins vegar og gefur nú kost á sér í embætti 1. varaforseta. Útlit var fyrir að Ragnar Þór yrði jafnvel sjálfkjörinn en á föstudaginn kom í ljós að svo verður ekki því Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar, hefur boðið sig fram á móti Ragnari Þór. Í tilkynningu sagði hún þrímenningana hafa fórnað trúverðugleika verkalýðshreyfingarinnar og félagsfólki fyrir eigin „valdahagsmuni“.

„Óljóst er hvað þríeykið vill með sambandið," segir Ólöf Helga í tilkynningunni. „En það hefur komið skýrt fram að þau munu ekki hafa rúm fyrir aðrar skoðanir en sínar eigin og vilja stjórna í krafti meirihlutaræðis. Allir sem mótmæla þeim fá yfir sig fúkyrðaflaum – og þegar önnur sjónarmið eru sett fram er þeim mætt með hótunum og offorsi.“

Miðað við þetta útspil kæmi á líka á óvart ef Sólveig Anna yrði sjálfkjörin. Framganga hennar innan Eflingar, fjöldauppsagnirnar, var með þeim hætti að sómasamlegu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar ofbauð.