Bandaríski tæknirisinn Apple kom mörgum að óvörum í gær þegar hann gaf út áfestanlegt og þráðlaust hleðslutæki fyrir iPhone 12 línuna.

MagSafe-hleðslutækið kostar 99 dollara vestanhafs og gerir manni kleift að hlaða símann á ferðinni. Hleðslutækið veitir eina heila hleðslu fyrir iPhone 12 mini en eitthvað minni hleðslu fyrir aðrar gerðir.

Hleðslutækið hleður símann með 5W afli, sem telst ekki ýkja mikið, þegar hleðslutækið er ótengt. Það er gert til þess að ofhita ekki tækin og lengja rafhlöðlulíf þeirra. Verði hleðslutækið of heitt gæti hugbúnaður símans takmarkað hleðslu við 80%.

Þegar hleðslutækið er hins vegar tengt við símann og í hleðslu við að minnsta kosti 20W hleðslutæki hleðst síminn með 15W afli.

Hægt verður að hlaða batteríið með því að festa það á símann og setja símann í hleðslu eða með því að setja sjálft hleðslutækið í hleðslu. Ef bæði síminn og hleðslutækið eru í hleðslu á sama tíma mun síminn byrja að hlaða sig upp í um 80% áður en hleðslutækið fer að hlaðast.

Magsafe 12 battery pack iphone
Magsafe 12 battery pack iphone
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hægt er að sjá stöðuna á hleðslunni í símanum.

Þá verður hægt að skoða stöðuna á hleðslu hleðslutækisins í símanum. Hægt verður að hlaða aðrar gerðir af iPhone-símum með hleðslutækinu en ekki verður hægt að festa það við þá, þar sem þeir eru ekki með segul á bakhliðinni.