Sigurður Héðinn hefur áratuga reynslu í stangaveiði, bæði sem leiðsögumaður og í fluguhnýtingu. Í laxveiðiheiminum er hann gjarnan kenndur við sína frægustu flugu Hauginn og kallaður Siggi Haugur. Hann segir mikilvægast fyrir nýliða í veiðinni að vera óhrædda. Eins og öllu öðru skapi æfingin meistarann.

„Þegar verið er að stíga sín fyrstu skref í veiði þá myndi ég telja að það væri best að ræða við einhvern, sem hefur stangaveiði og fluguhnýtingar sem áhugamál, og leita ráða hjá viðkomandi.

Oftast er það þannig að þeir sem feta slóð veiðigyðjunnar geta lent í því að fara grýttari leiðina að markmiðunum. Flest okkar erum það lánsöm að eiga nákominn ættingja, félaga eða vin, sem stundar þetta áhugamál og þá er best að leita ráða hjá þeim. Þetta er fólkið sem segir satt og ráðleggur eftir bestu getu og vitund.“

Réttur veiðibúnaður

Að sögn Sigurðar Héðins er að sjálfsögðu mikilvægt að vera með veiðibúnað sem sé í góðu ástandi.

„Það er þannig í þessum heimi að þetta snýst mikið um krónur og aura. Hafa ber í huga það eru ekki græjurnar sem gera viðkomandi að betri veiðimanni heldur er það reynslan og æfingin sem skapar meistarann.

Þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref ættu í byrjun að reyna að fá lánaðar veiðigræjur, kaupa notaðar græjur eða ódýra pakka í veiðibúð. Eina skilyrðið er að búnaðurinn sé í góðu ástandi svo hægt sé að nota hann.“

Auðvelt að verða slarkfær

Sigurður Héðinn segir að fólki komist fljótt að því hvort stangaveiðin sé eitthvað sem heilli.

„Það er ótrúlega auðvelt að verða slarkfær í veiðinni og ná árangri í samræmi við það. Að verða góður veiðimaður kemur með tíð og tíma en það ferðalag getur verið langt því það er endalaust hægt að bæta við sig þekkingu í stangaveiði.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.