Opnunarkvöld norrænu kvikmyndahátíðarinnar Hygge fór fram í Háskólabíó í gærkvöldi þar sem danska kvikmyndin Kysset var meðal annars frumsýnd. Þetta er í fyrsta sinn sem Hygge hátíðin fer fram á Íslandi en átta myndir verða til sýnis á meðan henni stendur.

Lilja Ósk Diðriksdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir að viðtökur hafi verið langt umfram væntingum og eru skipuleggjendur að hennar sögn í skýjunum.

© Mummi Lú (Mummi Lú)

„Þetta er ný hátíð sem varð í rauninni til vegna þess að það var svo mikið úrval af frábærum norrænum kvikmyndum. Við ákváðum þar með að setja af stað hátíð og búa bara til eitt heimili fyrir allar þessar skemmtilegu myndir,“ segir Lilja.

Hún bætir við að skipuleggjendur sjái fram á að Hygge muni verða árlegur viðburður en það er nú þegar byrjað að skoða hvaða kvikmyndir gætu mögulega orðið fyrir valinu á næsta ári.

© Mummi Lú (Mummi Lú)

Hátíðin fer fram dagana 4-18. maí og segir Lilja að allar myndir sem sýndar eru eigi það sameiginlegt að hafa slegið í gegn í sínu heimalandi.

„Það er mjög gaman að halda hátíð þar sem maður getur mælt með öllum myndunum sem sýndar eru. Við erum með hasar, rómantík, grín og svo góðan danskan krimma. Það er líka frábært að finna fyrir því hvað það er mikill áhugi fyrir norrænum kvikmyndum og hversu ánægt fólk er með þetta framlag.“