Tilnefningarnefnd fasteignafélagsins Kaldalóns hefur lagt til að Pálína María Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfestingarfélagsins IREF ehf., verði kjörin í stjórn á aðalfundi félagsins sem fer fram 3. apríl næstkomandi.

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að Kristín Erla Jóhannsdóttir, sem hefur setið í stjórn Kaldalóns frá maí 2022, gefi ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Hinir fjórir stjórnarmenn Kaldalóns - Álfheiður Ágústsdóttir, Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, Haukur Guðmundsson og María Björk Einarsdóttir – sækjast eftir endurkjöri og eru öll tilnefnd til áframhaldandi stjórnarsetu. Nefndin leggur því til að eftirfarandi einstaklingar verði kjörnir í stjórnina:

  • Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, stjórnarformaður - tók sæti í stjórn í maí 2022
  • Álfheiður Ágústsdóttir - tók sæti í stjórn í apríl 2022
  • Haukur Guðmundsson - tók sæti í stjórn í mars 2022
  • María Björk Einarsdóttir - tók sæti í stjórn í mars 2022
  • Pálína María Gunnlaugsdóttir

Alls bárust sex framboð til setu í stjórn, þar með talið fjögur frá núverandi stjórnarmönnum. Áður en skýrslan var gefin út dró einn frambjóðandi í aðalstjórn framboð sitt til baka.

Í nefndinni, sem er að ljúka sínu fyrsta starfsári, sitja Ásgeir Ágústsson, Margrét Sveinsdóttir og Unnur Lilja Hermannsdóttir. Margrét er formaður nefndarinnar.

Fyrrum landsliðsfyrirliði í körfubolta

Pálína María Gunnlaugsdóttir er framkvæmdastjóri og situr í stjórn IREF ehf., sem er einn af 20 stærstu hluthöfum Kaldalóns með 1% hlut. Hún sinnir jafnframt framkvæmdastjórn og stjórnarsetu í dótturfélögum IREF ehf., Lind Fasteignasölu ehf., Stál ehf., og Bæjarbyggð ehf. Jafnframt situr Pálína í stjórnum Steindórs ehf., Elfoss ehf. og Fjölblendis ehf.

Á árunum 2013-2023 starfaði Pálína í Arion banka hf., síðast sem viðskipta- og lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði. Pálína, sem er fædd árið 1987, er fyrrum landsliðsfyrirliði í körfubolta.