*

sunnudagur, 5. desember 2021
Frjáls verslun 25. desember 2018 12:33

10 stærstu fyrirtæki Evrópu

Samanlögð velta 10 stærstu fyrirtækja Evrópu nam yfir 1.700 milljörðum evra í fyrra, um 232 þúsund milljörðum króna.

Júlíus Þór Halldórsson
Höfuðstöðvar Royal Dutch Shell í Rotterdam.
european pressphoto agency

Evrópusambandið er næststærsta hagkerfi heims, rétt á eftir Bandaríkjunum, með 16,4 þúsund milljarða evra samanlagða landsframleiðslu og stendur undir um 22% samanlagðrar framleiðslu heimsins. Ekki eru hinsvegar öll Evrópuríki í Evrópusambandinu, svo leiða má að því líkum að Evrópa sé í raun stærsta hagkerfi heims, sé hún talin sem ein heild.

Hér verða talin upp 10 stærstu fyrirtæki Evrópu, sé miðað við veltu síðasta árs. Samanlögð velta þeirra nam yfir 1.700 milljörðum evra, eða um 232 þúsund milljörðum íslenskra króna, og hagnaðurinn yfir 100 milljörðum evra, sem samsvarar yfir 14 þúsund milljörðum króna. Heildareignir þeirra nema um 5.500 milljörðum evra, eða um 737 þúsund milljörðum króna, og eigið fé 841 milljarði evra, sem gerir um 114 þúsund milljarða króna. Sín á milli hafa þau í vinnu yfir 2,1 milljón starfsmenn.

1. Royal Dutch Shell
Á toppnum trónir heimsþekkta bresk-hollenska olíu- og gasfyrirtækið Shell. Félagið framleiddi 3,7 milljónir olíutunnuígilda af olíu og gasi á dag í fyrra, samtals yfir 1,3 milljónir tunnuígilda, og í árslok námu sannreyndar óunnar birgðir olíu og gass 12,2 milljörðum olíutunnuígilda.
Velta: 281.680 (28,3%)
Hagnaður: 16.734 (218%)
Eignir: 338.937 (48,6%)
Starfsmenn: 92 þúsund
Stofnað: 1907

Tölur eru í milljónum evra. Hagnaður er fyrir skatta. Prósentur í sviga segja til um breytingu frá fyrra ári við veltu og hagnað, en eiginfjárhlutfall við eignir.

2. Volkswagen Group
Næst kemur þýska bílaframleiðslusamstæðan Volkswagen, sem selur bíla undir merkjum Audi, Bentley, Bugatti, Lamborghini, Porche, SEAT, Skoda og Volkswagen, auk Ducati mótorhjóla og MAN og Scania flutningabíla. Félagið seldi 10,7 milljónir bíla á árinu, og er stærsti bílaframleiðandi heims á þann mælikvarða.
Velta: 230.682 (6,2%)
Hagnaður: 13.913 (90,8%)
Eignir: 422.193 (25,8%)
Starfsmenn: 642 þúsund
Stofnað: 1937

3. British Petroleum
Þriðja sætið vermir hið breska olíu- og gasfélag BP, áður British Petroleum. Félagið er kannski þekktast í seinni tíð fyrir olíulekann í Mexíkóflóa árið 2010, en það er með yfir 18 þúsund sölustaði og framleiddi 3,6 milljónir olíutunnuígilda á dag í fyrra. Olía og gas sem vitað er af í jörðu í eigu félagsins námu 18,4 milljörðum olíutunnuígilda í lok síðasta árs.
Velta: 221.712 (28,9%)
Hagnaður: 6.627
Eignir: 230.218 (36,3%)
Starfsmenn: 74 þúsund
Stofnað: 1909

4. Glencore
Glencore er ensk-svissneskt hrávöru- og námufyrirtæki, og varð til í núverandi mynd með sameiningu við námufyrirtækið Xstrata árið 2013. Félagið stundar viðskipti með yfir 90 tegundir hrávöru, er með 150 námur og starfsemi í 50 löndum. Árið 2012 sagði BBC frá því að fyrirtækið ætti fleiri skip en breski sjóherinn.
Velta: 189.654 (31,9%)
Hagnaður: 6.388
Eignir: 112.891 (36,5%)
Starfsmenn: 146 þúsund
Stofnað: 1974

5 . Daimler
Þýski bílaframleiðandinn Daimler er þekktastur fyrir að framleiða elsta bílamerki heims: Mercedes-Benz, en þess fyrir utan framleiðir fyrirtækið bíla, rútur, flutningabíla og mótorhjól undir ýmsum öðrum merkjum. Félagið seldi 3,3 milljónir farartækja í fyrra, þar af 2,2 milljónir Mercedes-Benz bíla, 400 þúsund sendibíla og 470 þúsund flutningabíla.
Velta: 164.330 (7,2%)
Hagnaður: 14.301 (13,7%)
Eignir: 255.605 (25,6%)
Starfsmenn: 289 þúsund
Stofnað: 1883 sem Benz & Cie

6. Total
Total er franskt olíu- og gasfélag. Starfsemi þess spannar alla olíu- og gaskeðjuna, frá hráolíu og náttúrugasi, til raforkuframleiðslu, flutnings, vinnslu og markaðsetningar og viðskipta með olíu. Dagleg framleiðsla nam 2,5 milljónum olíutunnuígilda og olía og gas í eigu félagsins sem vitað er af í jörðu námu 11,5 milljörðum olíutunnuígilda.
Velta: 158.288  (12,5%)
Hagnaður: 10.456 (55,0%)
Eignir: 202.007  (47,0%)
Starfsmenn: 98 þúsund
Stofnað: 1924

7. Exor
Exor er ítalskt eignarhaldsfélag sem heldur utan um eignarhlut í bílaframleiðendunum Fiat Chrysler og Ferrari, framleiðslutækjafyrirtækinu CNH Industrial, sem framleiðir tæki fyrir landbúnað og byggingariðnað, tryggingafélaginu PartnerRe, ítalska fótboltaliðinu Juventus, og breska vikuritinu The Economist. Félagið er í meirihlutaeigu hinnar ítölsku Agnelli fjölskyldu.
Velta: 143.430 (2,4%)
Hagnaður: 7.763 (81,9%)
Eignir: 163.775 (19,0%)
Starfsmenn: 304 þúsund
Stofnað: 1927

8. Allianz Group
Flestir Íslendingar kannast eflaust við Allianz; evrópskt fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í Þýskalandi, sem sérhæfir sig í tryggingum og eignastýringu. Félagið hefur verið með skrifstofu hér á landi síðan 1994 og selur Íslendingum persónutryggingar og viðbótarlífeyrissparnað. Í lok síðasta árs hafði eignastýring félagsins tæpa 2. 000 milljarða evra í stýringu, og tryggingahlutinn tryggði 88 milljón manns.
Velta: 126.149 (3,0%)
Hagnaður: 10.148  (-2,5%)
Eignir: 901.300  (7,6%)
Starfsmenn: 141  þúsund
Stofnað: 1890

9. BNP Paribas
Franski bankinn BNP Paribas er sá eini sem kemst á þennan lista, en hann varð til við sameiningu Banque Nationale de Paris og Paribas árið 2000. Hann er 8. stærsti banki heims, sé miðað við heildareignir, er með starfsemi í 77 löndum og 5 heimsálfum, og yfir 30 milljónir viðskiptavina.
Velta: 104.128 (5,6%)
Hagnaður: 11.310 (0,9%)
Eignir: 1.960.252 (5,5%)
Starfsmenn: 196 þúsund
Stofnað: 1848 sem BNP

10. AXA
AXA er franskt alþjóðlegt tryggingafélag sem einnig sinnir fjárfestingastýringu og annarri fjármálaþjónustu. Félagið starfar fyrst og fremst í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku, Austur- Asíu, og Miðausturlöndum, og viðskiptavinir þess eru yfir 100 milljón talsins. Félagið er rúmlega 200 ára gamalt, en AXA nafnið var tekið upp árið 1985.
Velta: 98.549 (-1,6%)
Hagnaður: 7.686 (-15,3%)
Eignir: 870.128 (8,7%)
Starfsmenn: 160 þúsund
Stofnað: 1816