Hagkerfi evrusvæðisins dróst saman um 1,6% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samkvæmt nýbirtum tölum hagstofu Evrópu, Eurostat.

Áður höfðu bráðbirgðatölur gefið til kynna að samdrátturinn hefði numið 1,5% en í morgun birti Eurostat tölur um þjóðarframleiðslu evrusvæðisins þar sem fram kemur að hagkerfið dróst saman um 1,6%.

Í kjölfarið lækkaði gengi evrunnar gagnvart Bandaríkjadal um tæp 0,5% en greiningaraðilar á vegum Reuters fréttastofunnar telja að evrusvæðið muni dragast enn frekar saman á þessu ári.

Nú eru 16 ríki sem tilheyra evrusvæðinu eftir að Slóvakía tók upp evru sem helsta gjaldmiðil um síðustu áramót. Þjóðarframleiðsla Slóvakíu telst þó ekki með í tölum frá 2008.