Hagnaður Sparisjóðs Keflavíkur nam 363 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 521 milljón á sama tíma í fyrra og dróst því saman um 30% milli ára. Hreinar vaxtatekjur jukust um 20% milli ára og námu 411 milljónum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 582 milljónum króna og drógust saman um 31% milli ára og munar þar mest um 301 milljóna króna samdrátt á gengishagnaði af annarri fjármálastarfsemi.

Þrátt fyrir samdrátt hagnaðar milli ára var arðsemi eigin fjár sjóðsins mjög góð eða 31%. Arðsemi sjóðsins í fyrra var hins vegar einstaklega góð eða 57,4% og skýrist sú góða arðsemi af gengishagnaði.

Önnur rekstrargjöld námu alls 389 milljónum króna og jukust um 4,6% frá sama tímabili árið áður. Laun og launatengd gjöld jukust um 6,8% og annar almennur rekstrarkostnaður jókst um 4,6%. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af niðurstöðu efnahagsreiknings var 1,9% og er óbreytt frá sama tímabili árið áður.

Framlag í afskriftarreikning útlána var 162 milljónir króna en var 178 milljónir á sama tímabili árið áður. Sem hlutfall af niðurstöðu efnahagsreiknings var framlagið 0,79% en var 0,92% á sama tímabili árið áður.

Í tilkynningu frá sjóðnum kemur fram að fyrstu 6 mánuðina einkenndist ytra umhverfi á starfssvæði sjóðsins af nokkurri óvissu á vinnumarkaði. Kemur það fram í minni innlánsaukningu og minnkandi útlánaeftirspurn. Eiginfjárstaða sjóðsins hefur verið að styrkjast verulega á síðustu árum sem gerir hann betur í stakk búinn til að bregðast við aukinni samkeppni á fjármagnsmarkaði og takast á við tímabundinn samdrátt á starfssvæðinu.