*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Erlent 21. maí 2020 13:30

400 milljónir pantana af bóluefni

Lyfjafyrirtækið AstraZeneca hefur fengið pantanir á yfir 400 milljónum skammta af Covid-19 bóluefni.

Ritstjórn
Tilraunastofa í Tælandi, tengist fréttinni ekki beint.
epa

Breska lyfjafyrirtækið AstraZeneca hefur fengið pantanir upp á 400 milljónir skammta af bóluefni gegn Covid-19 sem er ekki fullsannað. Fyrirtækið hefur einnig fengið yfir einn milljarða Bandaríkjadollara í fjármögnun frá heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna til að þróa bóluefnið. Financial Times greinir frá.

Yfir 300 milljónir skammtar af bóluefninu verða sendir til Bandaríkjanna og stefnt er á að það verði tilbúið til notkunar í byrjun október næstkomandi en þetta kom fram í tilkynningu bandaríska heilbrigðisráðuneytisins í dag.

Samstarf þess við AstraZeneca er hluti af ‚Operation Warp Speed‘, frumkvæði Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem vinnur að hraðri þróun á framleiðslu bóluefnis í Bandaríkjunum.

Bóluefni AstraZeneca er unnið í samstarfi við Oxford háskólann en frummynd bóluefnisins þykir vera ein fremsta lausnin í baráttunni gegn kórónuveirunni. Fyrsta stig klínískra tilrauna hófust í lok aprílmánaðar en háskólinn áætlar að niðurstöður þeirra verða ekki tilbúnar fyrr en um miðjan júní en þá munu víðtækari tilraunir hefjast.

Breska lyfjafyrirtækið greindi frá því fyrr í vikunni að það ynni að því að byggja upp aðfangakeðju til að framleiða allt að milljarða skamta af bóluefninu þó enn sé óljóst hvort það sé skilvirkt til að tækla veiruna.

Breska ríkið hefur einnig fjárfest 65,5 milljónum punda í Oxford verkefnið sem hluti af samkomulagi um að yfir 30 milljónir skammtar af bóluefninu verði tilbúnir í september fyrir fólk í Bretlandi. „Bretland verður fyrsta þjóðin sem fær aðgengi að bóluefninu verði það árangursríkt,“ kom fram í tilkynningu breska ríkisins síðastliðinn sunnudag.

AstraZeneca sagði hins vegar fyrr í dag að fyrirtækið ætti í samskiptum við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina um að tryggja sanngjarna útdeilingu á bóluefninu um heiminn. Fyrirtækið vinnur einnig með alþjóðlegum dreifingaraðilum sem munu sjá til þess að bóluefnið verði „aðgengilegt víðs vegar um heiminn með réttlátum hætti“.

Hlutabréfa AstraZeneca hafa hækkað um 18% frá upphafi árs. 

Ólík bóluefni

Núverandi leiðtogi í kapphlaupinu að bóluefni fyrir Covid er bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna. Fyrirtækið kynnti jákvæðar niðurstöður fyrr í vikunni sem virtust gefa til kynna að bóluefni þeirra framleiði hlutleysandi mótefni sem er nauðsynlegt til að eiga við veiruna. Lausn Moderna felst í að sprauta viðtakanda með genetísku efni (RKS) sem kemur ónæmiskerfinu af stað.

Oxford bóluefnið gengur hins vegar út á notkun á veikri útgáfu af almennu kvefi sem veldur smiti hjá simpönsum og inniheldur genetíska efni Sars-Cov-2, vírusnum sem veldur Covid-19. Í kjölfar bólusetningar munu frumur viðtakandans framleiða prótein sem fær ónæmiskerfið til að ráðast á vírusinn.