Félagið Alvogen Iceland, sem er dótturfélag hins alþjóðlega lyfjafyrirtækis Alvogen, skilaði um 803 milljóna króna tapi á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Félagið hefur boðað mikla uppbyggingu hér á landi en um 30 manns starfa fyrir dótturfyrirtækið á Íslandi. Róbert Wessman er forstjóri Alvogen.

Samkvæmt ársreikningi Alvogen Iceland námu tekjur fyrirtækisins um 689 milljónum á árinu 2013 sem er talsverð aukning frá árinu 2012 þegar tekjurnar námu 462 milljónum króna. Tapið eykst talsvert milli ára en það var 239 milljónir árið 2012 en 803 milljónir 2013. Mestu munar um aukningu í skrifstofu- og stjórnunarkostnaði og launakostnaði. Eigið fé fyrirtækisins var í lok árs 2013 neikvætt um rúmlega einn milljarð króna.