Í lok ágúst voru 63 reynsluakstursnúmer eftirlýst af Umferðarstofu. Virðast þau hafa glatast en gætu þó allt eins verið í umferð á bílum án leyfis. Samkvæmt upplýsingum frá Umferðastofu er þarna um uppsafnaðan lista að ræða, en ekki sé þó mikið um að slíkar númeraplötur glatist.

Þessi númer eru með rauðum fleti og svörtum stöfum og eru fyrstu stafirnir RN en þar á eftir kemur þriggja stafa tala. Númerin á lista Umferðarstofu hafa síðast verið í notkun hjá hinum ýmsu innflutningsaðilum, bifreiðaumboðum og einstaklingum. Hafa þau verið notuð á óskráðar bifreiðar sem boðnar hafa verið til reynsluaksturs sem og á bifreiðar sem verið er að færa á milli staða vegna skráningar.

Númerin hafa lengst af verið stönsuð í ál og sömu gerðar og venjuleg bílnúmer. Samkvæmt upplýsingum Umferðastofu hefur sú breyting þó verið gerð gagnvart einstaklingum sem eru að flytja inn bíla og þurfa númer til flutninga á milli staða, að þau númer eru prentuð á pappaspjöld og endast því stutt.