*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 25. nóvember 2021 11:03

Abú Dabí sjóður hornsteinsfjárfestir

Yfir helmingur af hlut hornsteinsfjárfestisins RWC í Íslandsbanka er skráður á sjóðinn Al Mehwar Commercial Investment.

Sigurður Gunnarsson
Hlutabréf Íslandsbanka voru skráð í Kauphöllina þann 22. júní síðastliðinn.
Haraldur Guðjónsson

Hlutur sjóðastýringarfyrirtækisins RWC Asset Management í Íslandsbanka er kominn undir 1%. RWC fékk úthlutað 1,54% hlut sem hornsteinsfjárfestir í útboði bankans í júní og hefur því selt minnst 0,54% hlut frá útboðinu. RWC greiddi um 2,4 milljarða króna í útboðinu en hefur nú selt bréf í bankanum fyrir að minnsta kosti 1,2 milljarða. Hinn erlendi hornsteinsfjárfestirinn í útboðinu, Capital World, hefur þó bætt við sig hálfri prósentu frá því í júní og fer með 4,32% hlut.

Erlendu sjóðastýringarfyrirtækin RWC og Capital World, ásamt Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Gildi, voru valin sem hornsteinsfjárfestar fyrir útboðið. Það fólst í að þau skuldbundu sig áður en útboðið hófst til að kaupa samtals 10% hlut í bankanum. Í kjölfar útboðsins voru hornsteinsfjárfestarnir fjórir stærstu hluthafar Íslandsbanka, að undanskildum ríkissjóði. Tekið var fram í útboðslýsingunni að hornsteinsfjárfestarnir þurftu ekki að sæta sölubanni (e. lock-up) í tiltekinn tíma vegna úthlutunarinnar.

Viðskiptablaðið sagði frá því í júní síðastliðnum að sjóðurinn Al Mehwar Commercial Investments LLC, sem tengist ríkisfjárfestingafélagi í furstadæminu Abú Dabí, væri meðal stærstu hluthafa Íslandsbanka, þá með 0,9% hlut. Samkvæmt lista yfir hluthafa bankans í byrjun mánaðarins, sem Viðskiptablaðið hefur séð, er Al Mehwar meðal sjóða sem tilheyra fjárfestingu  RWC. Yfir helmingur af hlut RWC í Íslandsbanka er skráður á Al Mehwar.

Sjá einnig: Erlendir sjóðir selja í Íslandsbanka

Erlendum sjóðum var úthlutað 10,5% í útboðinu í júní en í byrjun nóvember var hlutur þeirra kominn niður í 7,8%. Á móti kemur hafa íslenskir lífeyrissjóðir verið að stækka hlut sinn að undanförnu.

Stikkorð: Íslandsbanki RWC