Í dag lækkuðu þrettán af fimmtán félögum í Úrvalsvísitölunni. Mest lækkaði Actavis um 9% en uppgjör fjórða ársfjórðungs var verulega undir væntingum. Önnur félög sem lækkuðu töluvert voru Landsbankinn og Burðarás um 3% og Össur og Bakkavör um 2,3%. Burðarás mun birta uppgjör á fimmtudaginn næstkomandi og spáum við að tap fjórða ársfjórðungs hafi numið 1.670 m.kr.

Þrátt fyrir þessar lækkanir undanfarna tvo daga hefur Úrvalsvísitalan engu að síður hækkað um 11% frá áramótum og er það meiri hækkun en á helstu hlutabréfavísitölum heims eins og bent er á í Vegvísi Landsbankans. Þau félög sem hafa hækkað mest frá áramótum eru Flugleiðir (40,1%), Og Vodafone (19,7%) og Landsbankinn (19%).