Afgangurinn af vöruskiptum nam 8,8 milljörðum króna í september, sem er töluvert meira en að meðaltali á árinu. Vöruútflutningur nam 55,5 milljörðum en vöruinnflutningur nam 46,7 milljörðum. Meðalafgangur af vöruskiptum á fyrstu átta mánuðum ársins var 3,9 milljarðar.

Hagstæð þróun vöruskipta nú í september skrifast alfarið á vöruútflutning sem var sá mesti í krónum talið síðan í janúar síðastliðnum. Vöruútflutningur í september er svipaður og hann var á sama tíma í fyrra, en sé litið fram hjá óreglulegum liðum á borð við skip og flugvélar var hann töluvert meiri nú, eða sem nemur um 12% reiknað á föstu gengi.

Mestu munar um útflutningsverðmæti sjávarafurða sem nam 27,5 mö.kr. nú í september og hefur það ekki verið meira síðan í október í fyrra. Var útflutningsverðmæti sjávarafurða um 16% meira á föstu gengi en það var í sama mánuði í fyrra. Jafnframt munar nokkuð um útfluttar iðnaðarvörur, en það var um 8% meira nú í september en á sama tíma í fyrra reiknað á föstu gengi.

Vöruinnflutningur var jafnframt aðeins meiri í september en hann hefur að jafnaði verið á árinu, og svipaður og hann var á sama tíma í fyrra. Veruleg aukning var þó á innflutningsverðmæti mat- og drykkjarvara á milli ára, sem nam alls 5,3 mö.kr. nú september sem er 49% meira en á sama tíma í fyrra.