Icelandair hefur uppfært afkomuspá sína upp á við um 35 milljón dali, um 4,4 milljarða, og spáir nú 35-55 milljón dala rekstrartapi (EBIT) á árinu. EBIT og nettó afkoma þriðja ársfjórðungs er sögð svipuð og í fyrra, þegar félagið hagnaðist um 62 milljónir dala , þrátt fyrir áhrif kyrrsetningar MAX vélanna. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til kauphallar.

Seinkun áætlaðrar endurkomu MAX véla félagsins veldur því að kostnaður við innleiðingu þeirra færist yfir á næsta ár, auk þess sem vel er sagt hafa gengið að draga úr áhrifum kyrrsetningar þeirra, sem áætlað er nú að verði um 100-120 milljónir dala á árinu. Gert hafði verið ráð fyrir um 140 milljóna dala áhrifum vegna kyrrsetningarinnar á fyrri hluta ársins.

Umbætur í leiðakerfi félagsins og bætt tekjustýring eru einnig sögð farin að skila árangri, en bætt staða félagsins kom í ljós við vinnslu uppgjörs fyrir þriðja ársfjórðung, sem birt verður næstkomandi fimmtudag. Loks gerir félagið ráð fyrir betri afkomu á fjórða ársfjórðungi þessa árs en á sama fjórðungi í fyrra, þegar það tapaði 57 milljónum dala .

Tilkynningin í heild:

Horfur í rekstri Icelandair Group á árinu 2019 eru betri en gert hafði verið ráð fyrir en félagið sendi jákvæða afkomuviðvörun í Kauphöll nú í kvöld.

EBIT spá félagsins hefur því verið uppfærð miðað við fyrirliggjandi forsendur, úr því að vera neikvæð um 70-90 milljónir bandaríkjadala í það að vera neikvæð um 35-55 milljónir bandaríkjadala, að teknu tilliti til þegar áætlaðra nettó áhrifa kyrrsetningar Boeing 737 MAX flugvéla. Nú þegar uppgjör þriðja ársfjórðungs liggur að mestu leyti fyrir, er ljóst að EBIT og nettó afkoma á fjórðungnum er svipuð því sem hún var á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir veruleg áhrif kyrrsetningar MAX véla á rekstur félagsins. Þá gerir félagið ráð fyrir betri afkomu á fjórða ársfjórðungi þessa árs en á sama fjórðungi í fyrra.

Þar sem félagið gerir ekki ráð fyrir MAX vélunum aftur í rekstur fyrr en í lok febrúar á næsta ári fellur kostnaður við innleiðingu vélanna í flota félagsins að nýju ekki til á þessu ári heldur flyst fram á næsta ár. Þá hefur gengið vel að draga úr áhrifum af kyrrsetningu MAX vélanna að undanförnu, auk þess sem umbætur í leiðakerfinu og bætt tekjustýring eru farin að skila félaginu árangri. Í ljósi þessa, eru nettó fjárhagsleg áhrif MAX kyrrsetningarinnar nú metin á um 100-120 milljónir fyrir árið 2019. Sú fjárhæð hefur verið uppfærð með tilliti til fyrrgreindra þátta.

Icelandair Group mun birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða fimmtudaginn 31. október nk.