Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, hefur í þessari viku selt hlutabréf í Amazon fyrir þrjá milljarða Bandaríkjadali, andvirði um 416 milljarða króna. Á þessu ári hefur auðkýfingurinn selt bréf í Amazon fyrir rúmlega tíu milljarða dollara, samanborið við 2,8 milljarða sölu árið áður.

Samkvæmt gögnum verðbréfaeftirlitsins voru viðskiptin liður í fyrirhugaðri sölu. Samkvæmt frétt CNBC neitaði Amazon að tjá sig um viðskiptin.

Það sem af er ári hafa hlutabréf Amazon hækkað um nær 75%. Markaðsvirði félagsins er um 1,6 billjónir dollara og er það í hæstu hæðum.

Áður hefur Bezos sagt að hann vilji selja í Amazon fyrir um milljarð dollara á hverju ári til þess að fjármagna eldflaugafyrirtækið sitt Blue Origin. Í febrúar setti forstjórinn tíu milljarða dollara sjóð á laggirnar sem berst gegn áhrifum loftlagsáhrifa, meðal annars með styrkjum til vísindamanna og aðgerðasinna.

Eftir viðskiptin á Bezos enn meira en 53 milljónir hluta í Amazon. Miðað við núverandi markaðsverð bréfanna er hluturinn virði virði um 170 milljarða Bandaríkjadali en Bezos er ríkasti maður jarðar.