*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 31. maí 2020 17:02

Aldrei logn á minni forstjóratíð

Finnur Árnason segir mikla hörku á smásölumarkaði. Fjarstæða sé að Bónus hafi orðið undir í samkeppni.

Júlíus Þór Halldórsson
Finnur Árnason, fráfarandi forstjóri Haga.

Finnur Árnason, fráfarandi forstjóri Haga, segir einn helsta styrkleika félagsins og þess stjórnunarstíls og hugarfars sem hann hafi viðhaft vera auðmýkt gagnvart viðskiptavininum, sem sé lykilatriði á hörðum samkeppnismarkaði.

„Ég man aldrei eftir því að það hafi verið mikið logn í samkeppninni í minni forstjóratíð. Þetta er stöðug barátta, og samkeppnin alltaf mikil, en ofan á það herðast átökin ennfrekar annað slagið. Það er bara í eðli þessa rekstrar. Okkar hugarfar hefur verið að við eigum engan kúnna að morgni. Í mín eyru er orðrómur um að Bónus hafi orðið undir fjarstæða. Bónus hefur verið í algjörri forystu í mjög mörgum þáttum. Við sáum 12% söluaukningu þrátt fyrir fækkun búða á síðasta ársfjórðungi. Bónus er það sem kúnninn vill.“

Þá bendir hann á að Bónus hafi verið fyrsta verslanakeðjan sem hættir sölu á plastpokum og fer alveg í umhverfisvænni og fjölnota poka, fyrsta verslanakeðjan til að kolefnisjafna reksturinn og unnið umhverfisverðlaun Terra fyrir flokkun og endurnýtingu, svo fátt eitt sé nefnt. „Fólk getur alveg haft skoðun á því að einhver sé að verða undir og einhver ofan á, en það er alveg ljóst fyrir mér þegar ég horfi á tölurnar að Bónus er sigurvegarinn.“

Hann viðurkennir þó að hugsanlega hafi félagið ekki verið nógu duglegt að gera út á þessi verkefni og byggja upp og þróa ímynd verslunarinnar í takt við tíðarandann. „Hugsanlega hefur ekki verið sagt nógu mikið frá þessu. Bónus hefur verið í forystu með margt sem ekki hefur verið mikið fjallað um, og það má alveg gagnrýna ð það hafi verið of lítið af því gert að segja frá því. Við erum þó eftir sem áður stolt af því hvernig fyrirtækið hefur verið rekið, með áherslu á að láta verkin tala.“

Nánar er rætt við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Hagar Finnur Árnason