Forseti Íslands hefur fallist á tillögu forsætisráðherra um að þing verði kallað saman þriðjudaginn 6. desember kl.13:30. Ríkisstjórnin fjallaði um fyrirhugaða þingsetningu á fundi sínum í morgun, en þar var jafnframt fjallað um framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 og tengdra þingmála sem lög verða fram í upphafi þings.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir í fréttatilkynningu sem send var út frá forsætisráðuneytinu að það sé tímabært að kalla Alþingi saman, svo tími gefist til þinglegrar meðferðar fjárlaga og mála sem þeim tengjast. Rúmur mánuður er liðinn frá kosningum og nálgast áramótin. Þótt skammur tími sé til stefnu telur Sigurður Ingi að hægt verði að ljúka öllum umfjöllunum á tilsettum tíma.