Þrír aðilar eru ákveðnir í að taka þátt í annarri umferð útboðs á 77% hlut Landsbankans og Glitnis í bresku matvælakeðjunni Iceland Foods. Mbl.is hefur það eftir frétt Business Week að þessir þrír séu Bain Capital, BC Partners og William Morrison verslanakeðjan.

Bain Capital var stofnað af bandaríska forsetaframbjóðandanum Mitt Romney árið 1984 og er það með höfuðstöðvar í Boston. BC Partners var stofnað af Barings bankanum sáluga, en varð sjálfstætt eftir fall þess banka árið 1995.

Forstjóri Iceland Foods og stofnandi, Malcolm Walker, fer með 23% hlut í Iceland og hefur hann rétt á að jafna hæsta tilboðið sem berst í hlutabréfin.

Markaðshlutdeild Iceland jókst um 2% á fjórða ársfjórðungi og er keðjan í níunda sæti yfir stærstu smásölukeðjur Bretlands. Fjárfestingarfélagið TPG Capital íhugar nú að koma að útboðinu með Walker, samkvæmt heimildum Business Week.