Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch lækkaði í gær lánshæfiseinkunnir Argentínu um fimm flokka úr B í CC. Fitch segir horfurnar neikvæðar enda ekki útilokað að Argentína verði gjaldþrota á nýja leik. FItch segir efnahagsmál í Argentínu sveipaða óvissu. Afskipti hins opinbera hafi aukist,  dregið hafi verulega úr landsframleiðslu og gjaldeyrishöft hert verulega auk þess sem stjórnvöldum gangi erfiðlega að afla gjaldeyris til að greiða af erlendum lánum.

Það eru einmitt uppstokkun á ríkisskuldum á árunum 2005 og 2010 í kjölfar þjóðargjaldþrots árið 2002 sem er Argentínumönnum fjötur um fót. Stjórnvöld fengu kröfuhafa ríkisins að borðinu á sínum tíma. Þeir afskrifuðu stóran hluta af skuldum landsins og skiptu gömlum skuldabréfum út fyrir ný. Eins og málinu er lýst á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal töpuðu lánardrottnar Argentínumanna 67% af fjárfestingu sinni. Uppstokkunin náði til 93% af skuldum landsins. Þær skuldir sem út af stóðu eru hins vegar á gjalddaga í næsta mánuði og verða Argentínumenn þá að greiða þrjá milljarða dala, jafnvirði tæpra 380 milljarða íslenskra króna.

Ríkisstjórn Argentínu hefur hins vegar þrjóskast til að greiða þeim sem ekki tóku þátt í skuldaafskriftum landsins á sínum tíma en Cristina Kirchner, forseti Argentínu, sagði á dögunum ríkisskuldabréfin í eigu bandarískra hrægammasjóða sem ættu þátt í því hvernig komið væri fyrir löndum hennar. Ríkisdómari í Bandaríkjunum hefur hins vegar dæmt á þann veg, að Argentínumenn megi ekkert greiða af skuldum sínum fyrr en lánin sem eru á gjalddaga í næsta mánuði verði greidd fyrst. Hlýði stjórnvöld ekki úrskurðinum getur farið svo að öll lán Argentínu verði gjaldfelld og verður þá landið gjaldþrota á ný, að mati Fitch.