Arion banki hefur tilkynnt fyrstur viðskiptabankanna um breytt vaxtakjör í kjölfar 100 punkta stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í síðustu viku. Óverðtryggðir vextir á íbúðalánum Arion hækka um 0,61-0,80 prósentur. Ekki er minnst á verðtryggð kjör og gera má því ráð fyrir að þau séu óbreytt. Vaxtabreyting Arion tekur gildi í dag.

Arion hækkar óverðtryggða breytilega íbúðalánavexti um 0,80 prósentustig og verða þeir 5,59%. Þá hækka óverðtryggðir fastir 3 ára íbúðalánavextir um 0,61 prósentustig og verða þeir 6,75%.

Almennir óverðtryggðir kjörvextir bankans hækka um 0,70 prósentustig og verða 6,60%. Kjörvextir bílalána hækka um 0,7 prósentustig og verða 7,00%. Yfirdráttar og vextir greiðsludreifinga hækka um eina prósentu.

Breytilegir óverðtryggðir innlánavextir hækka um allt að 1,00 prósentustig eða haldast óbreyttir. Fram kemur að vextir á veltureikningum haldist óbreyttir.