Áfram dregur úr atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Það mældist 7,2% vestra í september en var 7,6% í sumar. Færri fóru hins vegar af atvinnuleysisskrá en reiknað var með. Vinnandi fólki fjölgaði um 148 þúsund á milli mánaða í september. Búist hafði verið við að fjöldinn færi upp í um 180 þúsund. Þá er þetta nokkuð undir meðalfjölgun starfa frá byrjun árs og fram í jní en að meðaltali fjölgaði störfum um 233 þúsund á mánuði. Í sumar hægði hins vegar nokkuð á ferlinu, að því er fram kemur í umfjöllun um málið á vef breska dagblaðsins Financial Times .

Til samanburðar mældist 3,8% atvinnuleysi hér á landi í september.

Flestir fóru í þjónustustörf í mánuðinum eða 100 þúsund. Þá fjölgaði störfum um 20 þúsund í byggingageiranum og minna í öðrum geirum.

Blaðið segir hægari fjölgun starfa kunna að skýrast af því að einhverjir á atvinnuleysisskrá hafi gefist upp á leit sinni eða viðkomandi ekki nógu hæfur til starfa. Sé það raunin þá geti hið opinbera dregið úr stuðningi sínum við atvinnulífið og hækkað stýrivexti fyrr en áætlað var.