*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 15. ágúst 2021 13:05

Auka þjónustuframboð með vexti

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi, segir samstæðuna sífellt með augun opin fyrir kauptækifærum.

Andrea Sigurðardóttir
Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.
Aðsend mynd

Advania hefur vaxið ört á undanförnum árum. Á síðasta ári velti samstæðan yfir 70 milljörðum króna, sem er fimmföld velta samstæðunnar árið 2015. Gangi kaupin eftir mun Advania-samstæðan nær tvöfalda umfang sitt. Áætlað er að velta samstæðunnar verði um 130 milljarðar króna eftir samrunann og heildarfjöldi starfsfólks fari úr um 1.200 í 2.400. Sameiningin verður því sú stærsta í sögu Advania.

„Við höfum verið að vaxa talsvert hratt á liðnum árum. Ef við lítum yfir farinn veg höfum við náð að tvöfalda félagið á um það bil þriggja ára fresti síðastliðin ár en það verður auðvitað alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem við verðum stærri," segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.

Sjá einnig: Þremur árum á undan áætlun

Hann bætir því þó við að markmiðið sé þó ekki að vaxa vaxtarins vegna. „Það er auðvitað ekki markmið í sjálfu sér að verða sífellt stærri. Markmiðið með vextinum er að geta boðið viðskiptavinum upp á frábæra þjónustu og að hjálpa þeim í gegnum þær breytingar sem eru að verða í nútímasamfélagi með tilkomu nýrra tæknilausna. Til þess er leikurinn gerður og með þessum kaupum erum við að styrkja þjónustuframboð okkar alveg gríðarlega mikið."

Spurður hvort Advania hafi augastað á fleiri félögum segir Ægir svo vera. „Við erum með augun opin fyrir tækifærum á hverjum tíma og við finnum að það er víða mikill áhugi á því að fá okkur að borðinu, þannig að það eru alltaf einhver tækifæri í skoðun. Advania í Noregi og Svíþjóð verða væntanlega upptekin við fyrirhugaða sameiningu næstu misserin. Fyrr á þessu ári keyptum við jafnframt félög í Finnlandi og Danmörku, svo að þar er hellingur að gerast líka, en það var þó ekki af þeirri stærðargráðu sem Visolit-kaupin eru og við erum enn lítil í þeim löndum, þannig að það getur vel verið að það komi upp einhver tækifæri þar á næstu misserum."

Bæti hvort annað upp

Mikael Noaksson, forstjóri Advania-samstæðunnar, er fullur tilhlökkunar að sameina fyrirtækin tvö: „Bæði búa þau yfir miklum styrkleikum og munu bæta hvort annað vel upp. Með þessum kaupum stígum við stórt skref í áttina að því að verða eitt öflugasta þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni á Norðurlöndunum. Við verðum áfram trú kjarastefnu okkar og gildum um að þekkja viðskiptavini okkar vel og mæta þörfum þeirra. Með því að sameina krafta okkar munum við bæði breikka og dýpka þjónustuframboð okkar til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar," segir Mikael.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér