Sala á dýrari léttvínum í ÁTVR, þ.e. léttvínum sem kosta yfir 3.000 kr., jókst á síðasta ári um 8,79% á meðan sala á léttvíni í flöskum dróst saman um 1,17% og sala á öllu léttvíni, þar með talið kassavíni, jókst aðeins um 0,26%. Þetta kemur fram í upplýsingum sem ÁTVR tók saman fyrir Viðskiptablaðið.

Á síðasta ári seldust samtals 19,6 milljónir lítra af áfengi í verslunum ÁTVR og jókst salan um tvö prósent á milli ára. Frá árinu 2011 hefur heildarsala áfengis aukist um sex prósent en hún er enn nokkuð minni en þegar mest var árið 2008 þegar seldir voru 20,4 milljónir áfengislítra.

Athygli vekur að söluaukning í dýrum vínum á milli ára hefur verið umtalsverð síðastliðin ár og frá árinu 2011 hefur hún alltaf verið meiri en sala á víni í flöskum. Árið 2011 jókst sala á dýrari vínum um 12,71% frá fyrra ári á meðan sala á vini í flöskum jókst um 1,28% á sama tíma. Árið þar á eftir jókst sala á dýrari vínum um 7,81% á meðan allt flöskuvín jókst í sölu um 7,21% og allt léttvín um 8,61%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • 260 mál bíða afgreiðslu á Alþingi.
  • Innflutningur á surfski-kajökum er hafinn hérlendis.
  • Vigdís Hauks segir þingið óstarfhæft og líkir stjórnarandstöðunni við hungraða úlfa.
  • Jón Daníelsson prófessor segir að stýrivextir á Íslandi séu allt of háir.
  • Landsvirkjun hefur ekki skilað meiri hagnaði í 6 ár og tenging við álverð minnkar.
  • 19% aukning hefur orðið á nýjum örorkutilfellum.
  • Fluguveiðihátíðin RISE verður haldin í sjötta sinn á morgun.
  • Ríkisaðstoð á Íslandi hefur margfaldast með árunum.
  • Sjálfstæðir raforkuframleiðendur vilja reisa fjölda lítilla vatnsaflsvirkjana.
  • Svipmynd af Brynhildi Davíðsdóttur, formanni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
  • Ítarlegt viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um siðareglur Ríkisútvarpsins.
  • Óðinn fjallar um lýðræði í Evrópusambandinu.