Framkvæmdastjórn Evrópu gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 1% á árinu og 1,7% á því næsta. Horfurnar eru því betri en fyrri spár gerðu ráð fyrir en í febrúar var spáð 0,8% hagvexti á þessu ári og 1,6% á því næsta. Hagvaxtarhorfur benda þó til þess að töluvert hafi hægt á hagkerfum í Evrópu en hagvöxtur mældist 3,5% í fyrra.

Helsta breytingin til batnaðar eru væntingar um að orkuverð lækki. Góðar atvinnuhorfur og stuðningsúrræði stjórnvalda koma til með að hvetja til þenslu. Aftur á móti er búist við að hátt vaxtastig dragi úr getu atvinnulífsins til vaxtar, en Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 25 punkta í maí.