*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 12. september 2021 18:02

Bankamúrar brotnir niður

Riaan Dreyer býst við því að fólk muni innan fárra ára hafa sömu væntingar til erlendra millifærslna og við höfum til innlendra í dag.

Andrea Sigurðardóttir
Haraldur Guðjónsson / Aðsend mynd

Riaan Dreyer, framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Íslandsbanka, telur að tvær grundvallarbreytingar í bankakerfinu muni bæta hag neytenda á næstu árum, en á sama tíma skapa áskoranir fyrir bankana. Önnur þeirra felst í greiðslulausnum sem brjóta niður múra milli reikninga, debitkorta og kreditkorta, svokallaðar A2A-lausnir (account to account).

„Sú tilhugsun að þurfa að ákveða hvaða kort skuli nota við hverja greiðslu mun heyra sögunni til innan næstu þriggja til fimm ára. Neytendur munu einfaldlega taka upp síma, úr eða annað þvíumlíkt, án þess að leiða hugann að því hvaða kort eða reikningur liggur þar að baki eða hvaða færslukostnaður fylgir. Þessar breytingar verða spennandi fyrir neytendur en afar ógnvekjandi fyrir bankana, sem munu þurfa að endurhugsa margar vörur sem þeir bjóða. Þær hafa margar hverjar verið þróaðar yfir lengri tíma á þeim grunni að þær séu sniðnar að ákveðinni greiðslulausn á borð við kreditkort eða debetkort. Í framtíðinni munum við þurfa að finna skapandi lausnir til þess að umbuna viðskiptavinum, óháð því hvaða greiðslulausn þeir nota."

Hin stóra breytingin sem Riaan vísar í snýr að erlendum millifærslum og innheimtukröfum. „Það er alveg galið að enn sé þriggja til fimm daga biðtími eftir því að millifærsla skili sér á erlendan reikning, svo ekki sé minnst á hve kostnaðarsamar þær eru. Þetta er þó að breytast, stór og jákvæð skref hafa verið stigin í Evrópu með SEPA (Single Euro Payments Area) og á næstu fimm til sjö árum munum við sjá þessa aðgreiningu milli erlendra og innlendra millifærslna hverfa. Við munum hafa nákvæmlega sömu væntingar til erlendra millifærslna og við höfum til innlendra í dag. Eins munu viðskiptavinir geta sent kröfur beint í heimabanka í öðrum Evrópulöndum, án þess að þurfa til þess sérstaka millilandalausn. Þetta kann að hljóma sem agnarsmá breyting, en þetta er í reynd algjör grundvallarbreyting á því hvernig við hugsum bankaferla í dag," segir Riaan en bætir við að líklega muni taka lengri tíma að brjóta niður múra á öðrum mörkuðum, svo sem í Asíu, Bandaríkjunum og Afríku.

Nánar er rætt við Riaan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér