Krónan er að styrkjast nokkuð þessa dagana og í dag hefur krónan styrkst um 3% samkvæmt Markaðsvaktinni og stendur gengisvísitalan nú í 199 stigum.

Þetta er í fyrsta skipti í rúman einn og hálfan mánuð sem gengisvísitalan (sé miðað við markaðsgildi) fer niður fyrir 200 stig en þar áður hafði hún ekki farið niður fyrir 200 stig frá því um miðjan október.

Þeir aðilar sem Viðskiptablaðið ræddi við í dag eru samhljóma um skýringar á styrkingu krónunnar.

Þeir telja flestir að gjaldeyrir sé nú að skila sér í meira magni inn í landið. Þannig séu útflutningsfyrirtæki að fá loksins greitt eftir að greiðslur höfðu tafist verulega í kjölfar bankahrunsins.

Þá telja nokkrir viðmælendur Viðskiptablaðsins að bankar séu passasamir er kemur að gjaldeyrisviðskiptum, sérstaklega í ljósi umræðna í síðustu viku þar sem Straumur var sakaður um að veikja gengi krónunnar með því að stunda viðskipti með hana á yfirverði erlendis.

„Menn passa sig nú að fara eftir reglum Seðlabankans og vilja ekki láta hanka sig á öðru,“ segir einn viðmælenda blaðsins.

Þriðja ástæðan sem menn nefna fyrir styrkingu krónunnar er að bæði einstaklingar og fyrirtæki sem eiga eitthver magn gjaldeyris séu nú að losa sig við hann svo um muni.

„Þegar fólk sér höfuðstólinn í íslenskum krónum minnka dag frá degi íhuga margir að losa við gjaldeyrinn áður en krónan styrkist frekar. Þetta hefur síðan áhrif á frekari styrkingu,“ segir einn viðmælenda blaðsins.

Þá bíða allir viðmælendur blaðsins eftir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans í fyrramálið en þá er einnig búist við því að bankinn kynni aðgerðir sínar síðustu vikur sem kunna að hafa haft áhrif á styrkingu krónunnar.

Samkvæmt gengi Seðlabankans stendur Evran nú í 155,6 krónum, Bandaríkjadalur í 117,5 krónum og Sterlingspundið í 167,7 krónum.

Þá stendur svissneskur franki í 102,7 krónum, japanskt jen í 1,3 krónum og danska krónan í 20,8 krónum.