Leiðtogar Evrópusambandsins komust að samkomulagi í gærkvöldi um að banna stóran hluta af innflutningi á rússneskri olíu til að draga úr tekjum Rússlands á tímum stríðsins í Úkraínu. Forseti leiðtogaráðs ESB segir að aðgerðirnar muni strax ná utan um 75% af innfluttri olíu frá Rússlandi og um 90% í árslok.

Innflutningsbannið inniheldur þó tímabundna undanþágu frá innfluttri olíu frá Rússlandi sem fer í gegnum olíuleiðslur (e.pipelines). Undanþágan er til þess fallin að veita Ungverjalandi, Slóvakíu og Tékklandi svigrúm til að bregðast við aðgerðunum, samkvæmt frétt Financial Times.

Sjá einnig: Olíuverð ekki verið hærra í tvo mánuði

Innflutningsbannið er hluti af sjötta pakka þvingunaraðgerða ESB á hendur Rússlandi sem ná einnig til rússneskra banka og einstaklinga.