Neytendastofa hefur bannað ferðaskrifstofunni Tripical Travel að hækka verð á pakkaferð fyrir úrskriftarhópa á leið til Krítar um 15 þúsund krónur tuttugu dögum fyrir brottför.

Í ábendingum til Neytendastofu kom fram að Tripical hafi gefið þá skýringu að verðið hafi verið hækkað vegna verðhækkunar á eldsneytisverði. Allar pakkaferðirnar sem ábendingarnar vörðuðu hafi verið að fullu greiddar áður en til hækkana kom.

„Þá kom fram í ábendingu að pakkaferð til Krítar hafi verið breytt með þeim hætti að í stað beins flugs þyrfti að millilenda í Hamburg í um klukkustund og sú ástæða gefin að viðkomandi hafi fengið aukna farangursheimild, þrátt fyrir að í auglýsingu fyrir ferðina hafi beint flug verið auglýst,“ segir í ákvörðun Neytendastofu.

Í svari Tripical til Neytendastofu, dagsettu 8. júlí 2022, segir ferðaskrifstofan að ferðin hafi upphaflega verið kynnt útskriftarráði og nemendum haustið 2021 og ferðin bókuð í janúar 2022. Verð ferðarinnar, sem hafi verið 209.990 krónur á mann miðað við fjóra í herbergi, hafi tekið mið af aðstæðum á þeim tíma sem samið var.

Fyrir hefði legið frá upphafi að flogið yrði með leiguflugi enda 315 manna hópur. Þá taki kostnaður við leiguflug ávallt mið af eldsneytisverði enda sé það kostnaðarsamasti hlutinn við leiguflug. Kostnaðurinn taki mið af eldsneyti á þeim degi sem flogið er en flestir samningar Tripical kveði á um að ef verð hækki um meira en 5% þá beri ferðaskrifstofan viðbótarkostnaðinn. Af þeirri ástæðu sé Tripical með heimild til verðhækkunar í skilmálum sínum, sem allir útskriftarnemarnir samþykktu.

„Tripical geri alltaf ráð fyrir einhverjum breytingum á verðum, eins og eldsneyti og gengisbreytingum, þegar ferðir eru kynntar án þess að slíkar breytingar leiði til hækkunar á verði farmiða. Þær aðstæður sem undanfarið hafi verið uppi varðandi þróun á verði þotueldsneytis séu hinsvegar langt fyrir utan það að vera eðlilegar markaðssveiflur.

Forsendur séu einfaldlega allt aðrar og í raun brostnar. Um aðstæður sé að ræða sem tengist stríðsátökum í Úkraínu sem félagið hafi enga stjórn á og gat ekki séð fyrir. Aðstæður og forsendur hafi því gjörbreyst. Áætlunarflugfélög hafi verið að leggja á eldsneytisgjald nýlega vegna ástandsins og farmiðaverð almennt að hækka vegna þróunar á heimsmarkaðsvirði á eldsneyti.“

Óheimilt að hafa bara skilmála til hækkunar

Í tilkynningu Neytendastofu segir að meginreglan sé sú að verð samnings um pakkaferð skuli haldast óbreytt en samkvæmt lögum sé þó heimilt að gera verðbreytingu, m.a. vegna hækkunar á eldsneytisverði.

Í skilmálum Tripical var heimild til hækkunar á verði m.a. vegna breytinga á eldsneytiskostnaði en ferðamönnum var hins vegar ekki veitt heimild til verðlækkunar af sömu ástæðum. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki uppfyllt skilyrði laga til hækkunar á verði pakkaferðar. Var Tripical því óheimilt að hækka verð ferðarinnar samkvæmt ákvörðun Neytendastofu.