Baugur jók á föstudaginn eignarhlut sinn í bresku verslunarkeðjunni Woolworths í 10% úr rúmlega 8%, samkvæmt upplýsingum frá kauphöllinni í London.

Félagið hefur verið orðað við hugsanlega yfirtöku á Woolworths, en gengi hlutabréfa félagsins hefur sigið síðustu mánuði vegna samdráttar í sölu fyrirtækisins.

Búist er við að hagnaður Woolworths í fyrra verði á bilinu 40-60 milljónir punda, samanborðið við 73 milljónir punda árið 2004. Sérfræðingar segja að kaup Baugs í Woolworths séu eina ástæðan fyrir því að bréfin hafi ekki rýrnað enn frekar í verði.

Breskir fjölmiðlar birtu fyrr í þessum mánuði fréttir af því að Kaupþing banki hafi fyrir hönd ónefndra íslenskra fjárfesta keypt 2,5% hlut í Woolworths.

Um er að ræða 42 fjárfesta og eru flestir þeirra búsettir á Íslandi en Kaupþing vildi ekki upplýsa um hverjir þeir væru.