Baugur er sagður hafa eytt um 500 þúsund pundum eða um 73,5 milljónum króna í ráðgjöf vegna hugsanlegrar yfirtöku á tískuverslunarkeðjunni Moss Bros.

Breska blaðið Telegraph greinir frá þessu í dag en eins og kunnugt er hafði Baugur fyrr á þessu ári gefið út óbindandi yfirtökutilboð í Moss Bros fyrir 42 pens á hvern hlut en ákvað í síðustu viku að hætta við tilboðið. Hefði Baugur staðið við tilboð sitt hefðu kaupin verið upp á um 40 milljón pund en Baugur á fyrir tæp 30% í félaginu.

Telegraph segir Baug hafa valið sér ráðgjafafyrirtæki í dýrari kantinum. Ráðgjafa á borð við McKinsey og The Gap Partnership, PricewaterhouseCoopers og lögfræðistofuna DLA Piper.

Þá greinir blaðið frá því að ýmsir úr fjármálaheiminum í Lundúnum telja að Baugur hafi aðeins gert tilboð í Moss Bros til að hrekja burt samkeppnisaðila en eins og fyrr segir á Baugur tæplega 30% í félaginu.

Moss Bros er nú eftir allt saman í þeirri einkennilegu stöðu að það eru þrír stórir hluthafar í félaginu sem allir keppa gegn hver öðrum og hafa ólík markmið.

Hér má sjá frétt Telegraph.