Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir ekki rétt að því hafi verið haldið leyndu að nokkrir af stærstu bönkum landsins hafi fengið hundruð milljarða dala lán hjá seðlabankanum á sama tíma og þeir hafi haldið því fram að þeir stæðu traustum fótum.

Upplýsingarnar komu fram í fréttaskýringu í tímaritinu Bloomberg Markets í síðasta mánuði og því haldið fram að lánveitingunum hafi verið haldið leyndum í rúm tvö ár. Þá er fullyrt að bankarnir hafi hagnast um 13 milljarða dala á björguninni. Á sama tíma og þetta fór fram á bak við luktar dyr hafi bankarnir lagst gegn því að stjórnvöld hertu reglur um banka og fjármálafyrirtæki.

Seðlabankastjórinn sendi bandarískum þingmönnum bréf í vikunni þar sem hann bendir á að Bloomberg Markets hafi ekki farið með rétt mál.