Benedikt Jóhannesson, formaður stjórnar sjúkratryggingastofnunar sem tekur til starfa í haust, verður starfandi stjórnarformaður stofnunarinnar uns forstjóri hefur verið skipaður. Það kemur í hlut starfandi stjórnarformanns að undirbúa starfsemi nýju stofnunarinnar og taka nauðsynlegar ákvarðanir  í samráði við  heilbrigðisráðherra og stjórn stofnunarinnar.

Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.

„Lögð er áhersla á mikilvægi samráðs við Tryggingarstofnun ríkisins  við undirbúninginn, en hún annast nú afgreiðslu sjúkratrygginga í umboði heilbrigðisráðherra, „segir á vef ráðuneytisins.

Umsóknarfrestur um stöðu forstjóra sjúkratryggingastofnunar var lengdur til 15. september 2008 þegar ljóst var að frumvarp til laga um sjúkratryggingar hlyti ekki endanlega umfjöllun fyrr en í september.

Þá er ítrekað að umsóknarfrestur um starf forstjóra hinnar nýju stofnunar er til og með 15. september næstkomandi og eru umsækjendur beðnir að sækja um starfið á heimasíðu Capacent Ráðninga, www.capacent.is og senda jafnframt greinagóðar upplýsingar um menntun og fyrri störf.

Skipað verður í stöðuna til fimm ára í senn. Um laun og önnur starfskjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs. Konur, jafnt sem karlar, eru hvattar til að sækja um stöðuna. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.