Fjölsóttur uppgjörsfundur Icelandair Group fyrir þriðja ársfjórðung 2014 var haldinn á Icelandair Hotel Natura í morgun. Icelandair Group hagnaðist um 85,8 milljónir dollara (10,4 milljarða króna) á þriðja ársfjórðungi. Þetta er töluvert meira en á sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 65,3 milljónir dollara (7,9 milljarða króna). Hagnaður félagsins er sá mesti á einum ársfjórðungi frá stofnun, fyrir 78 árum síðan.

Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að EBITDA ársins 2014 muni nema 150-155 milljónum bandaríkjadölum sem er hærra en afkomuspá félagsins gerði ráð fyrir.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, var að vonum ánægður með uppgjörið, þó að hann hafi einnig farið varfærnum orðum um framhaldið. Enn séu vannýtt tækifæri til að jafna árstíðabundnar sveiflur og aukin samkeppni sé komin á sumar flugleiðir.

VB sjónvarp náði tali af Björgólfi eftir uppgjörsfundinn.